Hver er Björn Steinbekk?

Björn Steinbekk.
Björn Steinbekk. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Björn Steinbekk hefur verið í umræðunni á liðnum dögum eftir að miðar sem hann seldi á leik Íslands og Frakklands skiluðu sér ekki í réttar hendur. Hann er jafnan titlaður sem athafnamaður og hefur komið víða við í viðskiptalífinu.

Árið 2004 fékk Björn yfirmenn MTV til landsins en ætlunin var að kanna möguleikann á því að halda verðlaunahátíð sjónvarpsstöðvarinnar hér á landi. Í samtali við Morgunblaðið í september 2004 sagði Björn að til greina kæmi að halda hátíðina annaðhvort í Egilshöll eða Laugardalshöll. Björn fór yfir MTV-ævintýrið í samtali við Viðskiptablaðið árið 2014 og sagði málið hafa stoppað hjá yfirvöldum sem vildu ekki veita peningum í verkefnið. Sagðist hann hafa leitað til Þórólfs Árnasonar, þáverandi borgarstjóra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, þáverandi menntamálaráðherra, og Valgerðar Sverrisdóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, en ekkert þeirra hafði áhuga á að styðja verkefnið.

Stofnaði sænska sjónvarpsstöð

Árið 2005 stofnaði Björn, eftir tveggja ára undirbúning, sænsku sjónvarpsstöðina BigTV ásamt Sigurjóni Sighvatssyni og fleiri fjárfestum. Markhópur stöðvarinnar var ungt fólk á aldrinum 15 til 25 ára og var henni ætlað að framleiða eigin þætti auk þess að senda út annað efni. Í samtali við DV í desember 2005 sagði Björn að stefnt væri að frekari landvinningum og var m.a. ætlunin að opna stöð í Finnlandi nokkrum mánuðum síðar auk þess sem unnið var að því að koma upp svipuðum stöðvum í fimm löndum í Suður-Evrópu. 

Stöðin var opnuð í janúar 2006 en líftíminn var stuttur og varð hún gjaldþrota í október sama ár vegna ógreiddra reikninga. 

Björn stofnaði fjárfestingarfélagið PODA Investment ásamt Arnari og Bjarka Gunnlaugssonum.
Björn stofnaði fjárfestingarfélagið PODA Investment ásamt Arnari og Bjarka Gunnlaugssonum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fasteignafélag með Arnari og Bjarka

Árið 2008 stofnaði Björn félagið Poda ehf. ásamt tvíburabræðrunum Arn­ari og Bjarka Gunn­laugs­sonum en það hélt utan um verkefni sem fólst í bygg­ingu og sölu á um­hverf­i­s­væn­um ein­býl­is­hús­um á Florida. Síðar ætluðu þeir að ráðast í að reisa skrif­stofu­bygg­ing­ar og hót­el en ætlunin var að höfða til fólks úr röðum ríka og fræga fólks­ins í Banda­ríkj­un­um, sem ætti fjölda húsa á þessu svæði. 

Verkefnið fór út um þúfur í hruninu og var félagið úrskurðað gjaldþrota í desember sl. 

Rammstein, Foo Fighters og Coldplay

Björn hefur staðið fyrir komu fjölda tónlistarmanna og skemmtikrafta til landsins á liðnum árum og rak fyrirtækið Opið ásamt Kára Sturlusyni. Hefur hann meðal annars efnt til tónleika með Damien Rice, Foo Fighters, Azealiu Banks, Coldplay, Korn og Rammstein. Þá sá Björn einnig um milligöngu þess að Ronan Keating kæmi á Þjóðhátíð auk þess sem hann sá um Reykjavík Music Festival fyrir Skífuna á sínum tíma og útgáfu „Pottþétt“-safnplatanna fyrir sama fyrirtæki.

Þá hefur hann einnig reynt að fá fleiri tónlistarmenn til landsins og í samtali við Viðskiptablaðið árið 2014 sagðist hann meðal annars hafa verið í sambandi við U2 í mörg ár.

Björn hefur staðið fyrir tónlistarhátíðinni Sónar frá árinu 2013.
Björn hefur staðið fyrir tónlistarhátíðinni Sónar frá árinu 2013.

Sónar frá árinu 2013

Árið 2013 hélt Björn tónlistarhátíðina Sónar í fyrsta sinn en hún hefur orðið stærri með hverju árinu síðan. Hátíðin hefur verið haldin í Barcelona á Spáni frá árinu 1994 og færðu eigendur hennar út kvíarnar árið 2002 og síðan hefur hún til dæmis verið í São Paulo, Tókýó, Höfðaborg, London, Frankfurt, Seúl og Buenos Aires.

Í samtali við mbl í fyrra sagði Björn að kostnaðurinn við Sónar væri í kringum 60 milljónir króna og ræddi um að miðaverð á tónleika væri almennt of lágt á Íslandi. Telur hann meðal annars að tónleikahaldarar ættu að fá sömu skattaafsætti og kvikmyndaiðnaðurinn. 

Í desember sl. greindi Stundin frá deilum sem staðið hafa yfir milli Sónar Reykjavík ehf., sem er í eigu Björns, og ÚTÓN, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, sem sér um Iceland Airwaves. Taldi Björn að Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTON, hefði haft um sig ýmis ærumeiðandi ummæli sem voru birt í grein Stundarinnar.

Þar sakar Sigtryggur Björn meðal annars um að vera „rosalega paranoid“ og að hafa skilið eftir sig sviðna jörð. „Þeim fækkar sem nenna að tala við þig lengur enda fjölgar þeim hratt sem hafa reynt að vinna með þér en gefist upp, þú hefur skilið eftir þig sviðna jörð,“ er haft eftir Sigtryggi.

Sagði frá ofbeldinu

Björn var í ítarlegu viðtali við Fréttatímann árið 2014 þar sem hann greindi frá baráttu við alkóhólisma og sagði frá ofbeldi sem hann var beittur af sambýlismanni móður sinnar sem barn. Þar sagðist hann hafa hætt að drekka fyrir fjórtán árum þegar hann fór í meðferð.

Björn var einnig áberandi í umræðunni um Dróma, sem sá um innheimtu á lánum sem voru í eigu SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans. Björn skrifaði opinskáan pistil um að félagið hefði farið fram á uppboð á húsnæði hans árið 2013 og mætti síðar í viðtal í Kastljósinu þar sem hann greindi frá starfsháttum fyrirtækisins sem hann kærði til Fjármálaeftirlitsins. Árið 2014 var uppboðið á eigninni afturkallað.

Frétt mbl.is: Mun endurgreiða miðana

Frétt mbl.is: Miðarn­ir komu ekki frá UEFA

Frétt mbl.is: „Svik, skipu­lags­leysi og barna­skap­ur“

Frétt mbl.is: Franska lög­regl­an rann­sak­ar miðasvik­in

Frétt mbl.is: Voru svik­in um miða á leik­inn

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK