Áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Mjólkursamsalan mun áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Mjólkursamsalan mun áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mjólkursamsalan mótmælir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að leggja á fyrirtækið 480 milljóna króna sekt vegna markaðsmisnotkunar. Fyrirtækið hyggst áfrýja ákvörðuninni til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og er reiðubúið að fara með málið alla leið eins og kom fram í máli Ara Edwald fyrr í dag. 

Sjá frétt mbl.is: Misnotaði markaðsráðandi stöðu

Mjólkursamsalan telur að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins byggi á rangri túlkun á samspili samkeppnislaga og búvörulaga, auk þess sem rangar ályktanir hafi verið dregnar um þau viðskipti sem til rannsóknar voru, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Í tilkynningunni bendir Mjólkursamsalan á að samkvæmt lögum er hluti af starfsemi mjólkuriðnaðarins undanþeginn afmörkuðum ákvæðum samkeppnislaga. Markmiðið með þeirri undanþágu sé að lækka kostnað við framleiðslu mjólkurafurða til ábata fyrir neytendur. Skipulag og starfsemi MS hafi grundvallast á þessu. Samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins telur stjórnvaldið að miðlun MS á hrámjólk hafi fallið utan þess samstarfs sem búvörulög heimila. MS telur þá túlkun ekki standast skoðun.

MS telur þá að í málinu hafi ekki verið um að ræða sambærileg viðskipti með mismunandi kjörum, og því sé ekki hægt að tala um að fyrirtækjum hafi verið mismunað í viðskiptum, líkt og MS er gert að sök í málinu. Telur MS að viðskiptin hafi verið hrein og skilyrðislaus sala á hrámjólk til þriðja aðila og miðlun á tilteknu magni hrámjólkur milli samstarfsaðila með skýrum skilmálum um til hvers hráefnið skyldi nýtt og hvert væri hámarksmagn, samkvæmt ákvæðum búvörulaga. Telur MS að ekki megi leggja þetta að jöfnu og því hafi ekki verið um mismunun að ræða.

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Segja sekt úr hófi og ekki á rökum reist

Þá telur MS að upphæð sektarinnar, 440 milljónir króna vegna brots gegn 11. gr. samkeppnislaga, sé í engu samræmi við eðli hins meinta brots. Segir að MS hafi engan ásetning um hið meina brot og að fyrirtækið hafi ávallt, vegna undanþáguheimildar búvörulaga, lagt ríka áherslu á að starfa í hvívetna í samræmi við samkeppnislög þegar ákvæði þeirra eiga við og átt samtal við Samkeppniseftirlitið um markaðsfærslur sínar. 

Sjá frétt mbl.is: Áfangasigur fyrir MS

Segir MS að í fyrri ákvörðum Samkeppniseftirlitsins, sem var ógilt, hafi verið staðfest að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gefið samspili búvörulaga og samkeppnislaga nægilegan gaum í rannsókn sinni. „Hvernig skuli túlka þær undanþágur sem löggjafinn hefur veitt mjólkuriðnaði frá ákvæðum samkeppnislaga hefur því ekki farist Samkeppniseftirlitinu vel úr hendi. Að þessu leyti er augljóst að hin háa sekt er úr hófi,“ segir í tilkynningunni.

Sjá frétt mbl.is: Rannsaki nánar hugsanlega misnotkun MS

Þá gerir MS einnig athugasemd við 40 milljóna króna sekt sem fyrirtækið fær vegna rangrar upplýsingagjafar. Segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi hvorki fyrr né síðar leynt nokkrum þeim upplýsingum eða gögnum sem Samkeppniseftirlitið hafi óskað eftir. 

„Í máli þessu var frá öndverðu upplýst um samstarf MS og KS [Kaupfélags Skagfirðinga, innsk. blm.]. Afstaða Samkeppniseftirlitsins í hinu fyrra máli var hins vegar sú að samstarf þetta hafði engin áhrif í málinu og því var það ekki rannsakað til hlítar. Þetta staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála með því að ógilda fyrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Ályktanir Samkeppniseftirlitsins um þetta eru því ekki á rökum reistar,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK