Bandarísk skattyfirvöld gruna Facebook um að hafa vanmetið eignir félagsins við fjárhagslega endurskipulagningu og flutning hluta félagsins til Írlands á árunum 2009 og 2010.
Á þessum árum flutti Facebook alþjóðaskrifstofur sínar og réttindi sín til höfuðstöðva á Írlandi. Leikur grunur á að félagið og endurskoðendafyrirtækið Ernst & Young hafi vanmetið verðmæti þessara eigna til þess að lækka eða komast hjá skattgreiðslum.
Facebook er eitt nokkurra alþjóðlegra fyrirtækja sem skattyfirvöld víða um heim eru að rannsaka. Önnur slík fyrirtæki eru Google og Apple.
Bandarísk skattyfirvöld hafa nú sent beiðni til Facebook þar sem þess er krafist að fá aðgang að gögnum um yfirfærslu réttindanna til Írlands. Rannsókn málsins hófst árið 2010 þegar skattyfirvöld skoðuðu tekjur af réttindum félagsins sem ekki höfðu áður verið gefnar upp til skatts. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg-fréttastofunnar. Facebook svaraði ekki fyrirspurn skattyfirvalda í júní og hefur því verið óskað eftir dómsúrskurði til að fá gögnin afhent.