Mun gjörbreyta íslenskum markaði

Tvær verslanir undir merkjum H&M munu opna hér á landi …
Tvær verslanir undir merkjum H&M munu opna hér á landi á næstu árum.

„Það er búið að vinna að þessu verkefni lengi og við erum rosalega ánægð að þetta hafi tekist,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins hf., en félagið og dótturfélag þess, Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., undirrituðu í dag leigusamninga um húsnæði undir tvær verslanir sænsku verslunarkeðjunnar H&M.

Frétt mbl.is: H&M opnar tvær verslanir á Íslandi

Verslanirnar opna annars vegar í Smáralind og hins vegar á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur á árunum 2017 og 2018. Helgi segir að koma verslananna muni að öllum líkindum hafa gríðarleg áhrif á íslenskan markað.

„Við teljum að þetta verði gríðarleg breyting á verslunarmarkaðinum á Íslandi. Þetta er með sterkari fyrirtækjum á þessum markaði í heiminum og eins og við vitum eru þeir með mjög hagstætt verð á fötum. Við teljum að það geti haft mikil áhrif eins og á verðlagningu,“ segir hann.

Vinnan hefur staðið yfir í tvö ár

Að sögn Helga er mikið lagt upp úr trúnaði varðandi öll smáatriði í samningnum og því sé ekki hægt að gefa upp að svo stöddu í hvaða plássi í Smáralind verslunin opnar. Fréttablaðið greindi hins vegar frá því á dögunum að verslun Debenhams í Smáralind yrði lokað í síðasta lagi í maí á næsta ári, en sölurými verslunarinnar er 3.200 fermetrar. Losnar því stórt pláss þar í verslunarmiðstöðinni, sem leiða má líkum að því að muni hýsa H&M. „Við getum ekkert gefið upp að svo stöddu en þetta verður allt saman kynnt á næstu mánuðum,“ segir Helgi.

Fjölmargir hafa reynt að fá verslunarrisann til að opna verslun hér á landi án árangurs, en að sögn Helga hefur vinna Regins við það staðið yfir í tvö ár. „Það hafa allir á Íslandi verið að eltast við H&M í alla vega áratug, en þessi vinna hefur staðið yfir hjá okkur í tvö ár. Svona samningar nást bara með mikilli skipulagningu og réttum vinnubrögðum,“ segir hann. „Við erum rosalega ánægð með þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK