„Ég hef trú á því að þetta muni hafa þau áhrif að verslun sem hefur farið úr landi flytjist í auknum mæli heim,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, um komu H&M hingað til lands.
Eins og mbl.is hefur fjallað um í morgun munu tvær verslanir sænsku verslunarkeðjunnar verða opnaðar hér á landi á næstu árum, annars vegar í Smáralind og hins vegar á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. Þá standa einnig yfir samningaviðræður um opnun H&M-verslunar í Kringlunni.
Andrés segir kannanir hafa sýnt að markaðshlutdeild H&M, og þá sérstaklega á barnafatamarkaði, sé ótrúleg miðað við að fyrirtækið sé ekki með verslun hér á landi. Megi því gera ráð fyrir því að sú verslun komi heim að stórum hluta, að því gefnu að verðið verði sambærilegt hér á landi og erlendis.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins hf. sem stendur að komu H&M hingað til lands, gerir ráð fyrir að svo verði og að verð á fötum verði sambærileg við verð í verslunum í öðrum löndum. Sagði hann í samtali við mbl.is í morgun að koma verslunarinnar myndi gjörbreyta íslenskum markaði og að gott vöruverð H&M gæti haft mikil áhrif á verðlagningu hér á landi.
„Hverju þetta breytir fyrir landslagið að öðru leyti verður tíminn að leiða í ljós en það vita það allir að þessi verslun hefur verið að keyra á frekar lágu verði svo þetta mun að öllum líkindum auka á samkeppni í fataverslun – það er skrifað í skýin,“ segir Andrés.
Fjölmargir hafa reynt að fá verslunarrisann til að opna verslun hér á landi án árangurs, en vinna Regins við það hefur staðið yfir í tvö ár.
„Þetta hefur auðvitað verið í umræðunni í mjög langan tíma en svo verður tíminn að leiða í ljós hvaða áhrif það mun hafa á samsetningu og umgjörð verslunarinnar hér á landi,“ segir Andrés. „Bæði koma Costco og koma H&M mun hafa töluverðar breytingar fyrir landslagið í för með sér þótt það sé ekki hægt að reikna það nákvæmlega út núna.“
Frétt mbl.is: H&M opnar tvær verslanir á Íslandi
Frétt mbl.is: Mun gjörbreyta íslenskum markaði
Frétt mbl.is: Viðræður um H&M-verslun í Kringlunni