Verð á hlutabréfum í japanska tölvuleikjafyrirtækinu Nintendo hefur rokið upp vegna vinsælda nýs Pokemon-tölvuleiks fyrir snjallsíma sem byggir á sýndarveruleikatækni. Fyrirtækið hefur verið tregt til að fara inn á snjallsímamarkaðinn en hyggur nú á fjóra titla til viðbótar á þessu reikningsári.
Pokemon Go hefur sigrað heiminn undanfarna daga en leikurinn kom út í Bandaríkjunum á miðvikudag. Leikurinn rauk strax upp í efsta sæti í Itunes-verslun Apple. Í kjölfarið hefur hlutabréfaverð í Nintendo hækkað um tíu prósent og hefur það ekki verið hærra undanfarna tvo mánuði. Markaðsvirði Nintendo er nú talið um 23 milljarðar dollara.
Stjórnendur Nintendo vildu lengi ekki láta draga sig út á snjallsímamarkaðinn heldur einbeita sér að leikjatölvunum sem eru einkennismerki fyrirtækisins. Þeir létu þó undan þrýstingi fjárfesta í fyrra og réðust í samstarf við DeNa Co. sem sérhæfir sig í snjallsímaleikjum.
Í Pokemon Go eiga spilarar að leita að og hremma Pokemon-fígúrur í raunheimum með hjálp sýndarveruleikatækni. Leikurinn er ókeypis en hægt er að kaupa ýmsa aukahluta í smáforritinu. Það er nauðsynlegt til þess að geyma, þjálfa og láta fígúrurnar berjast við aðrar.
Auk snjallsímavæðingarinnar hefur Nintendo í hyggju að setja nýjustu kynslóð leikjatölvu sinnar á markað á næsta ári.