Fluttu til Tenerife og opna bar

Herdís Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson.
Herdís Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson.

„Þú lifir bara einu sinni og við ákváðum að vaða út í lífið og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Herdís Árnadóttir sem nýlega sagði starfi sínu sem innkaupastjóri hjá Hagkaup lausu og flutti til Tenerife ásamt manninum sínum en þar ætla þau að opna strandbar í næstu viku.

Herdís og maðurinn hennar, Sævar Lúðvíksson, fluttu til Tenerife í mars og á miðvikudaginn klukkan 17 ætla þau formlega að opna fyrsta Íslendingabarinn á eyjunni. Hann nefnist Nostalgia Bar og er við Playa de las Américas. Ætla þau að efna til veislu og Herdís hvetur Íslendinga á svæðinu til þess að líta við.

Líkt og Akureyri á sólríkum degi

Tenerife hefur verið gríðarlega vinsæll áfangastaður hjá Íslendingum á síðustu misserum og vakti til dæmis mynd er sýndi íslenskar vélar einoka flugvöll eyjunnar töluverða athygli í vetur. Þrátt fyrir að vinsælt sé að ferðast á suðrænar slóðir fara hins vegar flestir aftur heim. Það gerðu Herdís og Sævar ekki.

Útsýnið frá nýja Íslendingabarnum á Tenerife.
Útsýnið frá nýja Íslendingabarnum á Tenerife.

Herdís segist hafa verið í góðri vinnu sem innkaupastjóri hjá Hagkaup áður en flutningarnir komu til. Starfinu var hún búin að gegna í sextán ár og segist hún hafa verið komin á þann stað að lítið hafi verið eftir að læra í vinnunni. „Við ákváðum bara að gera eitthvað alveg nýtt,“ segir Herdís. 

Hún hefur ferðast víða um heim en segir eitthvað alveg sérstakt við Tenerife. „Þetta er eyja eins og Ísland og það er eitthvað við hana. Mér líður svolítið eins og ég sé á Akureyri þar sem ég hitti nágranna í búðinni nema hvað að veðrið er yndislegt allan ársins hring,“ segir hún.

Þorrablót og íslenskt áfengi

Hugmyndin að flutningunum kviknaði þegar Herdís og Sævar fóru fyrst í frí til Tenerife og hafa þau verið að kanna aðstæður síðan og safna fyrir verkefninu. Hún segir þau bæði njóta þess að vera í kringum fólk og bætir við að maðurinn hennar kunni að syngja og geti þannig haldið uppi stemmningu á staðnum. Þá ætla þau að sýna fótbolta, vera með línudans, bridskvöld og ýmsa aðra skemmtun. Stefna þau einnig á að halda þorrablót í vetur og hafa þegar flutt inn alíslenskt áfengi.

Þau tóku yfir rekstur staðarins sem var í húsnæðinu sem þau eru með á leigu. Leigusamningurinn er til lengri tíma og segist Herdís því spennt fyrir því að byggja starfsemina upp á komandi árum. Aðspurð hvort þau séu varanlega sest að á Tenerife svarar Herdís að þau ætli að minnsta kosti að vera þarna þar til eyjan hættir að heilla.

Staðurinn nefnist Nostalgia Bar.
Staðurinn nefnist Nostalgia Bar.

Herdís segir Tenerife ólíkt öðrum sumarleyfisparadísum að því leyti að reksturinn dettur ekki niður á veturna. „Kúnnahópurinn verður bara annar,“ segir Herdís. „Ég er 47 ára gömul og á veturna er ég aftur orðin ung,“ segir hún létt í bragði.

Spurð hvort margir Íslendingar búi á Tenerife segir hún eitthvað vera um það og þá sérstaklega yfir veturinn. Flestir snúi aftur heim til Íslands á sumrin.

Hér má sjá Facebook-síðu staðarins þar sem ítarlegra heimilisfang er að finna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK