Hluthafar Nintendo valhoppa eflaust hraðar um en Pokémon-spilarar um þessar mundir þar sem hlutabréf fyrirtækisins hafa hækkað um 65 prósentustig á liðinni viku. Hlutabréf Nintendo ruku upp um önnur þrettán prósentustig í kauphöllinni í Tókýó í gær eftir stanslausar hækkanir í liðinni viku.
Þessar hækkanir má rekja beint til Pokémon-snjallsímaforrits sem kom út í síðustu viku og hefur notið gífurlegra vinsælda. Nýir notendur bætast við á hverjum degi og hafa fleiri náð í þetta nýja forrit en Tinder svo dæmi sé tekið auk þess sem notendafjöldinn nálgast Twitter.
Frétt mbl.is: Pokémon stærri en Tinder
Í frétt CNN Money er bent á að þennan æsing fjárfesta megi rekja til allra aukahlutanna í leiknum sem hægt er að kaupa. Nú er búið að smala milljónum notenda saman í ókeypis leik og næsta skref er að fá þá til að eyða peningnum í leiknum. Stórgróði gæti því verið fram undan hjá Nintendo.
Nintendo á að hluta fyrirtækið sem þróaði leikinn, Niantic, og varði um tuttugu milljónum dollara í þróunarkostnað þess á síðasta ári. Þá á Nintendo einnig hlut í öðru fyrirtæki er nefnist Pokemon Company og sér um sölu á samnefndum spilum og öðrum varningi tengdum leiknum.
Móðurfélag Google, Alphabet, á einnig hlut í Niantic.