Framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi segir það ekki hafa komið til tals að innkalla MALM-kommóður hér á landi vegna mögulegrar slysahættu en útilokar þó ekki slíka ákvörðun á hærri stigum innan fyrirtækisins. Hann segir undarlegt að taka eitt húsgagn út fyrir mengið og telur forvarnir áhrifaríkari lausn.
Líkt og fram hefur komið hafa 29 milljónir MALM-kommóða verið innkallaðar í Bandaríkjunum sökum þess að sex börn hafa látist þegar húsgögnin féllu yfir þau við klifur. Í þessum tilvikum hafa kommóðurnar ekki verið festar við vegg en slíkar festingar fylgja ávallt með húsgagninu og er mikilvægi veggfestingar ítrekað í leiðbeiningum. Í gær var einnig greint frá innköllun í Kína en hún er hins vegar frábrugðin því sem er í Norður-Ameríku og ekki eins ströng.
Varan verður ekki tekin úr sölu í Kína, líkt og var gert í Bandaríkjunum, en endurgreiðsla er í boði ef ómögulegt er að festa kommóðuna við vegg. Í Sádi-Arabíu og Katar hafa sambærilegar „innkallanir“ og í Kína verið gerðar.
Í nýlegri grein The Economist eru IKEA-slysin sett í samhengi við önnur slys innan veggja heimilisins en þar kemur fram að algengasta dánarorsökin er fall úr rúmi. Samkvæmt tölum frá neytendastofu Bandaríkjanna látast um tíu börn á ári vegna húsgagna sem falla á þau en hins vegar látast um 1.200 Bandaríkjamenn á hverju ári eftir að hafa dottið úr rúmi, stól eða öðrum húsögnum. Nokkuð ljóst er að hættan getur leynst víða innan heimilisins og því má spyrja hvort innköllun á einni tegund af húsgagni leysi allan vandann.
Þórarinn segir mikla umræðu um þetta hafa farið fram í Skandinavíu og bendir á að neytendayfirvöld í þeim löndum hafi staðið þétt við bakið á IKEA.
Edda Ólafsdóttir, fulltrúi á öryggissviði Neytendastofu, segir að innköllun sé ekki fyrirhuguð hér á landi á þessum tímapunkti. Hún bendir á að húsgagnið sé ekki hættulegt sem slíkt heldur sé mikilvægt að festa það við vegg, líkt og mörg önnur húsgögn, til að forðast mögulega slysahættu. Komi til innköllunar á Íslandi verði það vegna ákvörðunar fyrirtækisins.
Þórarinn bendir á að kommóðurnar standist hefðbundna öryggisstaðla í Bandaríkjunum fyrir húsgögn sem eiga að standa upp við vegg. Hins vegar hafi neytendastofa þar í landi ákveðið að taka einnig mið af stöðlum sem eiga við um húsgögn sem geta verið frístandandi á miðju gólfi og að IKEA í Bandaríkjunum hafi fallist á það.
Þórarinn segir framhaldið hér á landi ráðast af ákvörðunum stjórnenda IKEA-samstæðunnar. Hann geti ekki sjálfur ráðist í innköllun en hins vegar muni hann gera það ef einhver slík ákvörðun verður tekin ytra. Það hafi þó ekki komið til tals. „Það má vel vera að það verði eitthvað drastískt ákveðið og þá hlítum við því,“ segir hann.
Sjálfur telur Þórarinn að það myndi ekki leysa allan vandann þar sem hættan getur legið víða. Svipuð hætta sé af öðrum kommóðum og hillum séu þær ekki festar við vegg. „Stóru skilaboðin okkar eru að festa allt sem hægt er að festa,“ segir hann.