Gáttuð á vinnubrögðunum

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri og stofnandi Kaffitárs.
Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri og stofnandi Kaffitárs. mbl.is/Golli

„Við erum svo gáttuð á þessum vinnubrögðum og á því að opinbert félag skuli komast upp með að koma svona fram við okkur. Vegna þess að þeim ber skylda til að fara vel með almannafé og að gæta jafnræðis í einu og öllu,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs.

Isavia afhenti Kaffitári loksins gögn úr samkeppni um verslunarrými í Leifsstöð fyrir helgi eftir tveggja ára baráttu fyrir dómstólum. Isavia afhenti þó ekki öll gögnin og það sem varðar forvalið, þ.e. fyrsta hluta samkeppninnar, vantar ennþá. Gögnin eru hins vegar hvorki undanskilin í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingarmál, í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, né í Hæstaréttardómi sem fallið hefur í málinu.

Kaffitár óskaði eftir að fá þau afhent og gaf Isavia frest út gærdaginn í beiðni sinni. Isavia brást hins vegar ekki við þessu og hefur ekkert svar borist. Isavia hefur þó frest fram til föstudags og vonast Aðalheiður til að sjá gögnin þá. Ef ekki, þá verður sýslumaður að taka á málinu.

„Það á að taka slag um hvert einasta atriði,“ segir Aðalheiður og bætir við að Isavia muni ávallt reyna að finna nýjar ástæður fyrir því að láta ekki gögnin af hendi. Spurð hvort hún sé ekki að þreytast á slagnum svarar Aðalheiður játandi en segist ekki ætla að láta ráðskast með sig.

Kaffitár hefur staðið í slag við Isavia í tvö ár.
Kaffitár hefur staðið í slag við Isavia í tvö ár. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ósamræmi í gögnunum

„Okkur sýnist vera mikið ósamræmi í útboðslýsingu og stigagjöf og það er ekki bara hjá okkur,“ segir Aðalheiður aðspurð um gögnin sem Kaffitár hefur skoðað.

Kaffitár hafði rekið kaffihús í Leifsstöð í áraraðir en lenti í neðsta sæti í samkeppninni. Keppnin samanstóð af tveimur hlutum, annars vegar tæknilegum, þar sem matið er huglægara, og hins vegar fjárhagslegum, þar sem auðveldara er að bera umsóknir saman. 

Aðalheiður segir erfitt að leggja mat á niðurstöðuna verandi jafntengd málinu og hún er. „Ferlið sjálft sýnist manni samt vera meingallað,“ segir hún og bætir við að Kaffitár hafi til dæmis verið í neðsta sæti í fjárhagshlutanum og að áberandi sé hversu fá stig Kaffitár fékk fyrir þann hluta.

Það sé sérstaklega eftirtektarvert í ljósi rekstrarreynslunnar í Leifsstöð.

Ekki var minnst á markmið um alþjóðlega starfsemi í Leifsstöð …
Ekki var minnst á markmið um alþjóðlega starfsemi í Leifsstöð í kröfulýsingu. Það kemur hins vegar fram í greinargerð Isavia fyrir Héraðsdómi. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Markmið að fá alþjóðleg fyrirtæki í flugstöðina

Í greinargerð Isavia sem lögð var fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur segir: „Einn megintilgangur samkeppni varnaraðila var að fá öflug, alþjóðleg fyrirtæki í rekstur á verslunum og þjónustu á fríhafnarsvæðinu til að tryggja góða þjónustu við flugfarþega og bjóða þeim samkeppnishæf verð og tryggja félaginu trausta leigutaka og auknar leigutekjur.“

Aðalheiður segir þetta ekki hafa komið fram í samkeppninni. Í lýsingu hafi verið gerðar kröfur um íslenskar áherslur, en að ekki hafi verið minnst á að eitt megin markmiðið hafi verið að fá alþjóðleg fyrirtæki í flugstöðina. „Af hverju sögðu þeir þetta ekki í kröfulýsingu? Ef það var markmiðið átti ég ekki séns og hefði ekki verið að vesenast í þessu,“ segir hún. „En þetta var greinilega markmiðið og það náðist 100% fyrir veitingahlutann. Íslensku aðilarnir Kaffitár og IGS fóru út.“

Spurð hvort Kaffitár sé að íhuga skaðabótamál segir Aðalheiður of snemmt að segja og að fyrirtækið þurfi fyrst að fá aðgang að öllum gögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka