„Þessi íbúð er frábærlega staðsett fyrir Pokémon Go, Poké-stopp beint fyrir utan íbúðina hjá styttunni af Héðni Valdimarssyni, auk þess er fjöldinn allur af Poke-stoppum rétt hjá. Tilvalið að kíkja í opið hús, við verðum með Lure á styttunni og taka svo góða göngu í Vesturbænum og nýta sér Poke-stoppin í nágrenninu og klekja út eggjunum í leiðinni.“
Svona hefst auglýsing fasteignasölunnar Húsaskjóls fyrir íbúð við Hringbraut 75 sem nú er til sölu. Ásdís Ósk Valdsdóttir, fasteignasali Húsaskjóls og Pokémon-þjálfari, telur þetta fyrstu íbúðina sem auglýst er með þessum hætti á Íslandi, en kollegar hennar erlendis hafi tekið upp á því að markaðssetja opin hús með þessum hætti.
Opið hús verður í íbúðinni á þriðjudaginn milli klukkan 18:30 og 19:00. Ásdís á von á því að fólk geri sér ferð að húsinu á þriðjudaginn, þar sem Pokémon-gildru sem laðar að Pokémona verður komið upp við það, en það verði að koma í ljós hversu margir kíkja inn.
Spurð hvort hún telji að einhver kaupi íbúðina vegna Pokémon-vænnar staðsetningar, segir Ásdís það alveg mögulegt. „Hvað vill maður meira núna en íbúð með góðum Pokémon? Það er ekkert betra en góð íbúð með góðum Pokémon.“
Nánari upplýsingar um eignina má finna á fasteignavef mbl.is