Hlutabréf í Nintendo hríðféllu í verði í morgun eftir að forsvarsmenn fyrirtækisins greindu frá því að velgengni tölvuleiksins Pokémon Go myndi aðeins hafa takmörkuð áhrif á hagnað fyrirtækisins.
Hlutabréfin lækkuðu um 17,7% í viðskiptum í morgun, en markaðsvirði fyrirtækisins meira en tvöfaldaðist eftir að leikurinn var fyrst kynntur til sögunnar 6. júlí síðastliðinn.
Bandaríska fyrirtækið Niantic, sem Nintento á reyndar hlut í, framleiddi leikinn en í tilkynningu Nintendo til japönsku kauphallarinnar í morgun kom fram að tekjur Nintento af afnotagjöldum yrðu „takmarkaðar“ eins og það var orðað.
Þrátt fyrir lækkanirnar á morgun hafa bréfin alls hækkað um sextíu prósentustig frá því að leikurinn var gefinn út.
Uppgjör Nintendo fyrir fyrsta fjórðung ársins verður birt síðar í vikunni. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast ekki hafa endurskoðað afkomuáætlun sína, þrátt fyrir vinsældir Pokémon Go.
Nokkrir greinendur töldu að fjárfestar hefðu brugðist of harkalega við kauphallartilkynningunni í morgun. „Ég trúi því að Pokémon Go muni hafa mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins, miðað við núverandi vinsældir leiksins,“ segir David Gibson, greinandi hjá Macquarie Securities Group.