Katrín Tanja Davíðsdóttir fær rúmar 35 milljónir króna í sinn hlut fyrir sigur sinn á heimsleikunum í crossfit í gær, auk skammbyssu frá byssuframleiðandanum Glock, eins og mbl.is hefur áður fjallað um. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, sem hafnaði í þriðja sæti, fær tæpar átta milljónir króna í verðlaunafé.
Góður árangur Íslendinga á heimsleikunum, sem lauk í Los Angeles í gærkvöldi, skilar sér heldur betur í budduna.
Sigurvegararnir í kvenna- og karlaflokki fá 275 þúsund dali, sem jafngildir um 33,6 milljónum króna, í sinn hlut. Annað sætið hlýtur 90 þúsund dali, eða um ellefu milljónir króna, og þriðja sætið 60 þúsund dali, sem jafngildir 7,3 milljónum króna.
Auk þess eru veitt peningaverðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið í hverri grein fyrir sig: þrjú þúsund dalir fyrir fyrsta sætið, tvö þúsund fyrir annað sætið og eitt þúsund dalir fyrir það þriðja.
Eins og kunnugt er sigraði Katrín Tanja í heimsleikunum og fær því 275 þúsund dali. Auk þess fær hún þrettán þúsund dali til viðbótar fyrir velgengni sína í einstaka greinum. Samtals fær hún því 35,2 milljónir króna í sinn hlut, auk skammbyssunnar, eins og áður var minnst á.
Katrín sigraði einnig í heimsleikunum í fyrra og fékk þá tæpar 38 milljónir króna í verðlaun. Samtals hefur hún því fengið um 73 milljónir króna fyrir sigra sína tvo.
Ragnheiður Sara endaði í þriðja sæti og fær sextíu þúsund dali fyrir. Auk þess hafnaði hún í þriðja sæti í tveimur greinum og fær því samtals 7,6 milljónir króna í sinn hlut.
Annie Mist hafnaði í þrettánda sæti heimsleikanna, og vann auk þess eina grein, og fær samtals 15 þúsund dali fyrir. Það jafngildir 1,8 milljónum króna.
Þá endaði Þuríður Erla Helgadóttir í 19. sæti í kvennaflokki og var þriðja í einni grein. Fær hún um 850 þúsund krónur í sinn hlut.
Björgvin Karl hafnaði í áttunda sæti í karlaflokki og fær fyrir það nítján þúsund dali, eða 2,3 milljónir króna.
Verðlaunafé sem þetta er skattskylt, eins og minnt er á í reglum heimsleikanna, en fram kom í frétt mbl.is eftir að Annie Mist Þórisdóttir vann leikana á sínum tíma að greiða þyrfti skattinn hér á landi, samkvæmt tvísköttunarsamningi sem er í gildi á milli Íslands og Bandaríkjanna.