Fyrrverandi eigandi klúbbsins Strawberries hefur verið árkærður fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa vantalið virðisaukaskattsskylda veltu að upphæð rúmlega 230 milljónir króna. Meðal annars er þess krafist að gerður verði upptækur fjöldi eigna mannsins, meðal annars bifreiðir og húsnæði.
Fyrsti liður ákærunnar fjallar um að ákærði hafi ekki talið fram virðisaukaskattsskylda veltu að upphæð 230.554.762 kr. og virðisaukaskatt sem ákærði átti að standa skil á. Alls átti hann að greiða 52.655.427 kr. í virðisaukaskatt. Þá segir í ákærunni að hann hafi rangfært bókhald einkahlutafélagsins sem sá um rekstur staðarins, þannig að bókhaldið hafi gefið ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna félagsins.
Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2011-2014 með því að telja ekki fram í skattframtölum þessara ára tekjur að upphæð 64 milljónir króna. Er það upphæð sem viðskiptavinir lögðu inn á persónulegan bankareikning ákærða en þær tekjur voru skattskyldar samkvæmt lögum. Samtals vangreiddur tekjuskattur og útsvar af þeirri upphæð var rúmlega 28 milljónir króna.
Ákæruvaldið telur brot ákærða varða við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga en refsirammi þess ákvæðis er sex ára fangelsi.
Þá krefst ákæruvaldið þess að fjölmargar eignir mannsins verði gerðar upptækar. Meðal annars innistæður á bankareikningum einkahlutafélaga hans, samtals að upphæð 7,8 milljónir króna.
Einnig er krafist upptöku á tveimur fasteignum mannsins, fjölda bifreiða, meðal annars Cadillac, Corvette, Ford Thunderbird og BMW 3-seríu, og fjölda vörubifreiða.