Gagnamagnsumferð viðskiptavina Vodafone sem voru á ferð í Frakklandi í júní jókst um ríflega 600% á hvern notanda miðað við sama tímabil í fyrra.
EM í knattspyrnu fór fram í Frakklandi og flykktust Íslendingar þangað í júní og virtust flestir þeirra hafa verið með símana sína á lofti.
„Símnotkun viðskiptavina bar vinsældum Frakklands skýrt merki en alls mældist ríflega 600% aukning í gagnamagnsnotkun hvers viðskiptavinar Vodafone á ferð þar á tímabilinu. Eins hringdu viðskiptavinir líka meira og sendu sms á milli Frakklands og Íslands en í báðum tilfellum mældist um 90% aukning á milli ára,“ segir í tilkynningu frá Vodafone.
Þar kemur fram að aukningin endurspegli bæði frábæran árangur Íslands á EM og þá staðreynd að kostnaður við notkun farsíma erlendis hafi farið lækkandi undanfarið.
„Ljóst er að liðin er sú tíð að menn slökkvi á farsímanum um leið og lent er í nýju landi. Snjallsíminn er alltaf við höndina, enda allt í senn; samskipta- og öryggistæki, myndavél, upplýsingaveita, innkaupaleið o.s.frv,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, í tilkynningunni.
„Það fór ekki fram hjá neinum hversu duglegir Íslendingar voru að ferðast til Frakklands að styðja landsliðið og deila á samfélagsmiðlum. Tölurnar tala sínu máli auk þess sem ódýrara er en nokkru sinni að nota snjallsímann áhyggjulaust í útlöndum.“