Öpp sem hjálpa við Pokémon leit

Pokévision sýnir á korti hvar Pokémonarnir halda sig.
Pokévision sýnir á korti hvar Pokémonarnir halda sig.

Það er ekki aðeins fyrirtækið sem gefur út tölvuleikinn Pokémon GO sem græðir á tá og fingri á vinsældum leiksins. Síðustu daga og vikur hafa komið fram á sjónarsviðið öpp sem styðja við leikinn með margvíslegum hætti, s.s. auðvelda leitina að Pokémonunum eða að koma á stefnumótum við aðra spilara, jafnvel með ástarsambönd í huga. 

Pokémon GO var hleypt af stokkunum í byrjun júlí og síðan þá hafa mörg met fallið í tengslum við leikinn. Hann er t.d. þegar vinsælasti farsímaleikur allra tíma og halar inn milljónum á milljónum ofan í tekjur hvern dag. 

Á síðustu þremur vikum hafa fleiri stokkið á Pokémon-lestina og viljað nýta sér vinsældir leiksins. Sumir hafa reynt að apa eftir leiknum og setja í loftið eftirlíkingar af honum. Aðrir hafa brotið heilann aðeins meira og búið til öpp sem styðja við leikinn og spilara hans með ýmsum hætti. 

Flest þessi öpp eiga að auðvelda leitina að Pokémonum. Í dag eru þrjú slík öpp meðal þeirra 100 vinsælustu í App Store hjá Apple. Eitt þeirra heitir Poké Radar og hefur verið í öðru sæti listans yfir ókeypis öpp í marga daga. 

Í frétt um málið á vef Forbes segir að hugmyndasmiðurinn sé 23 ára gamall maður sem hafi flosnað upp úr skóla. Braydon Batungbacal átti alls ekki von á að appið hans myndi slá svona rækilega í gegn. 

„Þetta minnir mig á gamla daga, þegar Facebook opnaði þetta app-lífríki,“ segir hann í samtali við Forbes.

Appið Poké Radar er því samkvæmt þessu hluti af Pokémon GO fyrirbærinu, sem hefur stækkað og breyst í heilt lífríki, eins og Batungbacal orðar það. 

Frá því að allt þetta æði hófst hafa Batungbacal og tveir vinir hans sem eru verkfræðingar, varla sofið. Þeir hafa vakað yfir vefþjónum sínum til að koma í veg fyrir að þeir hrynji. Í síðustu viku voru 3-4 milljónir manna að nota appið. Til að halda slíkri umferð uppi þurfti Batungbacal að greiða um 1.000 dollara á dag, um 120 þúsund krónur, úr eigin vasa. 

Pokévision.com er líka vinsæl stuðningssíða. Ólíkt Poké Radar, sem treystir á upplýsingar um felustaði Pokémona frá notendum, nær síðan í upplýsingar um staðsetningu kvikindanna úr leiknum sjálfum og setur saman í gagnagrunn og á kort. Sá sem stendur að baki síðunni heitir Yangcheung Liu, og nemur hann taugavísindi við Háskólann í Michigan. Hann segir að hvatinn að baki stofnun síðunnar hafi verið sinn eigin pirringur við að finna Pokémonana. 

Notendur Pokévision voru 27 milljónir á fimm daga tímabili í síðustu viku. Liu segist ekki eiga von á því að græða mikið á hugmynd sinni þó hann sé með auglýsingar á síðunni og hvetji notendur til að styrkja sig. Þær tekjur fara í að halda síðunni úti og uppfæra hana. 

 Fyrirtækið Niantic, sem á Pokémon GO leikinn hefur ekki mikið tjáð sig um öll þessi forrit sem eiga að aðstoða við leitina. Þó hefur forstjórinn John Hanke sagt við Forbes að hann sé ekki mikill aðdáanda slíks. Hann bendir t.d. á að það brjóti notendareglur að sækja gögn út úr leiknum og nýta þau. 

Liu segist opinn fyrir því að ræða málin við Niantic. Hann telur að viðbótin sín, Pokévison, sé aðeins jákvæð fyrir leikinn og notendur hans. Það auki enn á vinsældir hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka