Leigubílstjórar í Lundúnum þurfa nú að læra ensku og standast sérstakt próf, annars gætu þeir misst vinnuna. Samkvæmt nýjum reglum í Bretlandi þurfa leigubílstjórar sem eiga annað móðurmál en ensku að gangast undir sérstakt enskupróf áður en þeir geta starfað sem sjálfstætt starfandi leigubílstjórar. Reglurnar ganga í gildi 1. október.
Transport for London, ríkisstofnunin sem sér um samgöngur í borginni, segir það nauðsynlegt fyrir bílstjóra að geta tjáð sig á ensku, bæði til þess að ræða um verðið við farþegann en einnig upp á öryggið.
Uber er þó ekki ánægt með reglurnar en flestir leigubílstjórar borgarinnar starfa þar. Fyrirtækið sagðist styðja hugmyndina að prófa talaða ensku en að tveggja tíma próf væri óþarfi. Sögðu þeir prófið fara langt fram yfir það sem þurfi til þess að geta keyrt fólk örugglega frá punkti A til B og eiga í samskiptum við kúnna.
Uber sendi viðskiptavinum sínum í Lundúnum tölvupóst á mánudaginn og bað þá um að hvetja borgarstjórann, Sadiq Khan, að endurskoða reglurnar.
Fyrirtækið segir nýju reglurnar hafa áhrif á þúsundir bílstjóra sem sækja um ný ökuréttindi eða eru að endurnýja sín gömlu. „Ef þeir borga ekki og ná ekki prófinu missa þeir réttindi sín og þar af leiðandi lifibrauð sitt,“ sagði í tilkynningu Uber. Þar segir jafnframt að Uber láti bílstjóra sína gangast undir viðamikil próf áður en þeir fá starfsleyfi. Þurfa þeir að hafa verið með fullnaðarökuskírteini í að minnsta kosti þrjú ár, farið í gegnum bakgrunnsskoðun og staðfræðileg próf þar sem tungumálahæfni og hvernig þeir lesa af kortum er prófað. Þá gangast þeir einnig undir læknisskoðun.
Prófinu, sem bílstjórarnir þurfa að fara í eftir 1. október, er lýst sem tungumálaprófi sem prófar hæfni hvers og eins til þess að tjá sig á takmarkaðan hátt í sérstökum aðstæðum. Á það að vera í samræmi við tungumálahæfni 9–11 ára barna sem eru með ensku sem móðurmál.