Telja LÍN-frumvarpið til mikilla bóta

Er það mat ráðsins að endurheimtur námslána ættu að batna …
Er það mat ráðsins að endurheimtur námslána ættu að batna mikið með þeim breytingum sem frumvarpsdrögin kveða á um, sem mun nauðsynlega draga úr rekstraráhættu LÍN. Þar vega breytingar á fyrirkomulagi endurgreiðslna þyngst. mbl.is/Hjörtur

Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna draga að frumvarpi til laga um námslán og námsstyrki. Viðskiptaráð telur frumvarpsdrögin vera til mikilla bóta og vegur þar þyngst hagfelldara stuðningsfyrirkomulag og bættar endurheimtur á útlánum sem draga úr rekstraráhættu Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Vonast ráðið til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

Í umsögninni sem hægt er að nálgast á vef Viðskiptaráðs segir meðal annars að ráðið fagni áformum um aukið gagnsæi í formi beinna styrkgreiðslna í stað óbeinna styrkja í formi niðurgreiddra vaxtakjara líkt og nú tíðkast og að nýja fyrirkomulagið væri til þess fallið að auka hvata námsmanna til að ljúka námi hraðar.

Nemendur líklegri til þess að velja arðbærari námsleiðir

„Breytingar á fyrirkomulagi við endurgreiðslu námslána eru að mati Viðskiptaráðs til mikilla bóta. Ekki er samræmi á milli fjárhæðar láns og endurgreiðslu í núverandi kerfi, sem veldur misræmi í styrkveitingu til námsmanna og býr til ranga hvata fyrir námsmenn. Þannig fá þeir mesta stuðninginn sem eiga stystan tíma eftir á vinnumarkaði og taka hæstu lánin. Þá eru nemendur jafnframt líklegri til að velja arðbærari námsleiðir samkvæmt nýju fyrirkomulagi,“ segir á vef Viðskiptaráðs.

Þá er það mat ráðsins að endurheimtur námslána ættu að batna mikið með þeim breytingum sem frumvarpsdrögin kveða á um, sem mun nauðsynlega draga úr rekstraráhættu LÍN. Þar vega breytingar á fyrirkomulagi endurgreiðslna þyngst.

Viðskiptaráð telur jafnframt ástæðu til að meta hvort 15 milljóna króna þak á lántöku hamli sókn nemenda í erlenda skóla af hæsta gæðaflokki.

Viðskiptaráð telur stjórn lánasjóðsins eiga að nýta heimild til að fela fjármálafyrirtækjum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu sjóðsins. Mætti jafnvel umorða ákvæði laganna á þann veg að stjórn sjóðsins bæri að bjóða út þau verk sem ekki er þörf á að sjóðurinn sinni sjálfur.

Fella ætti út 2. mgr. 18. gr. frumvarpsdraganna sem kveður á um heimild til að fresta allt að helmingi hverrar endurgreiðslu námslána í allt að 60 mánuði vegna fyrstu kaupa lántaka á íbúðarhúsnæði. Ákvæðið er til þess fallið að flækja námslánakerfið, draga úr endurheimtum og auka umsýslukostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK