Bandaríski tölvurisinn Apple gæti þurft að greiða milljarða evra afturvirkt í skatta á Írlandi á morgun, en þá mun samkeppniseftirlit Evrópusambandsins fella úrskurð sinn í máli fyrirtækisins.
Evrópusambandið hefur undanfarin þrjú ár rannsakað skattamál Apple á Írlandi, en muni eftirlitið komast að því að Apple þurfi að greiða sektina yrði hún hæsta skattasekt sem dæmd hefur verið í Evrópu. Fjallað er um málið á vef BBC í kvöld.
Hver sem niðurstaðan verður er líklegt að bæði írsk stjórnvöld og Apple muni áfrýja niðurstöðunni.
Samkvæmt lögum Evrópusambandsins geta skattayfirvöld ekki gefið ákveðnum fyrirtækjum skattaívilnanir, en sambandið telur slíkt vera ólöglega aðstoð. Samkvæmt sambandinu voru ákvarðanir stjórnvalda á Írlandi árin 1991 og 2007 á þann veg að þau leyfðu Apple að minnka skatta sína mikið. Hefur Apple beint alþjóðlegri sölu sinni í gegnum Írland til að nýta sér þessar ívilnanir.
Bandarísk stjórnvöld hafa á hinn bóginn gagnrýnt þessa skoðun Evrópusambandsins gagnvart Apple og fleiri bandarískum fyrirtækjum. Hafa skattayfirvöld vestanhafs sagt að Evrópusambandið sé með þessu að taka yfir skattamál einstakra aðildarríkja.
Í fyrra þurfti Starbucks að greiða 30 milljónir til yfirvalda í Hollandi og Fiat var látið borga svipaða upphæð til Lúxemborgar.