Áttu ekki annarra kosta völ

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla. mbl.is/Rax

Svokallaður pilot-þáttur var tilbúinn og fleiri þættir höfðu verið pantaðir þegar stjórnendum Plain Vanilla barst tölvupóstur í síðustu viku, þar sem bandaríska sjónvarpsstöðin NBC tilkynnti þeim að ekkert yrði af framleiðslu QuizUp-spurningaþáttar sem unnið hefur verið að í tvö ár.

Þar með voru forsendur rekstrarins brostnar, að sögn Þorsteins B. Friðrikssonar, forstjóra Plain Vanilla, en starfsmönnum fyrirtækisins var tilkynnti í morgun að skrifstofum þess yrði lokað og þeim afhent uppsagnarbréf.

Frétt mbl.is: Plain Vanilla-skrifstofu á Íslandi lokað

„Það sem gerist er að við erum búin að vera í miklum umskiptum núna á þessu ári. Við erum búin að vera að minnka kostnað, sögðum upp fólki á árinu, og um leið höfum við aukið tekjur og það hefur gengið ótrúlega vel,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is.

„En þetta hefur samt alltaf hangið á því að við höfum eytt ótrúlegum tíma og orku með NBC úti í Los Angeles að gera þennan þátt. Og þetta var mjög spennandi verkefni; þetta átti að vera þáttur sem átti að vera algjör bylting í gagnvirku sjónvarpi, þar sem fólk gat tekið þátt í spurningaþætti og unnið pening í gegnum símann sinn. Spilað með.

En svo fáum við email frá NBC í lok síðustu viku þar sem okkur er tjáð að þeir geti ekki haldið áfram með framleiðslu þáttarins og það má segja að öll plön og öll fjármögnun fyrirtækisins hafi snúið dálítið að því að gera ráð fyrir þeim tekjum sem þessum þætti myndu fylgja. Og við sjáum það bara mjög snemma að við eigum engra annarra kosta völ en að loka félaginu hérna á Íslandi.“

„It's Hollywood“

Ákvörðun NBC var algjörlega fyrirvaralaus, að sögn Þorsteins. „Þetta er eins og einhver sagði: It's Hollywood. Þetta er gríðarlega góður lærdómur sem maður hefur fengið út úr þessu en þetta kom okkur á óvart, vægast sagt.“

Plain Vanilla hefur haldið úti 15 manna teymi í Los Angeles til að vinna að þáttunum með NBC, en fyrsti þátturinn átti að fara í loftið 5. mars næstkomandi. Spurður að því hvort fyrirtækið hafi ekki verið tryggt fyrir þessari niðurstöðu í ljósi þess hversu langt framleiðslan var komin og þess tíma og fjármagns sem það hafði varið til hennar, segir Þorsteinn þau mál í skoðun.

Plain Vanilla hættir starfsemi en QuizUp lifir áfram.
Plain Vanilla hættir starfsemi en QuizUp lifir áfram.

En kom aldrei til greina að fara með sjónvarpsþáttahugmyndina annað?

„Hugsanlega,“ svarar Þorsteinn. „En málið er að eitt sem við höfum lært með Hollywood er að hlutirnir taka marga, marga, marga mánuði. Eins og við sjáum af samstarfi okkar með NBC. Og við sáum að við myndum ekki hafa fjármagn til að standa í því og ég vildi ekki hætta þriggja mánaða uppsagnarfresti fólks fyrir það að reyna eitthvað svona. Við þurfum að axla stærstu ábyrgðina, gagnvart starfsfólki okkar, og því létum við alla fá uppsagnarbréf í dag.“

Þorsteinn segir það hafa verið forgangsatriði að gera upp við starfsmenn Plain Vanilla; hætta ekki á að fara með félagið í þrot, sem yrði til þess að lýsa þyrfti kröfum í búið, og svo framvegis.

QuizUp verður áfram til, að sögn Þorsteins, en ekki liggur fyrir hver eða hvaða félag mun halda utan um reksturinn þegar Plain Vanilla hefur verið lokað. Þorsteinn segir þó allar líkur á að leikurinn, sem 80 milljónir manns hafa spilað, færist úr landi.

„Búið að vera geggjað“

„Svona er start-up heimurinn,“ segir Þorsteinn um endalok fyrirtækisins, en hann segist bjartsýnn á að ævintýrið muni geta af sér marga og spennandi sprota.

„Ég horfi á þetta þannig að auðvitað er þetta leiðinlegt en QuizUp er búið að vera svo stórkostlegt „success“ og svo gott fyrir Ísland á svo margan hátt,“ segir hann.

„Við erum búin að fá tækifæri til að byggja hérna upp 100 manna fyrirtæki í tækni þar sem fólk er að vinna með þeim stærstu í geiranum úti um allan heim. Við erum búin að koma með yfir 5 milljarða af erlendu fjármagni inn til Íslands þar sem við höfum borgað laun og annað. Og svo ertu kominn með þennan hóp af fólki sem ég er alveg handviss um að mun eftir þetta koma sem sprenging inn í íslenskt frumkvöðlastarf, því þetta er fólk sem er búið að læra svo mikið og safna sér svo mikillar reynslu. Og ég vona bara innilega að það verði fullt af nýjum fyrirtækjum stofnað og fullt af verðmætum skapað.“

Þorsteinn segist afar þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessari vegferð. „Þetta er búið að vera alveg geggjað,“ segir hann.

Næst á dagskránni er pása.

„Þetta er búinn að vera langur tími, að minnsta kosti fyrir mig; ég er búinn að vera sex ár í þessu fyrirtæki. Ég væri alveg til í, svona einhvern tímann þegar maður er búinn að ganga frá hlutum hér, að fara í smá frí. Ertu með hugmyndir?“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka