Eignarhaldsfélög gömlu bankanna heyra ekki undir ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, sem takmarkar fjárhæðir kaupauka við 25% af árslaunum starfsmanns.
Ákvæðið gildir þó einnig um svokölluð eignarhaldsfélög á fjármálasviði. Kveðið er á um inntak þess hugtaks í 1. grein laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Þar segir að með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði sé átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði, en þó ekki blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem dótturfélögin séu annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði.
Þá er það skilyrði sett að í það minnsta eitt dótturfélaganna sé fjármálafyrirtæki, að því er fram kemur í umfjöllun um bankabónusana í Morgunblaðinu í dag.
Tillaga að kaupaukakerfi fyrir starfsmenn Kaupþings var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða á aðalfundi félagsins, sem haldinn var síðdegis í gær.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var keimlík tillaga samþykkt á fyrsta hluthafafundi Glitnis þann 16. mars síðastliðinn. Í því tilviki er um að ræða álíka háar upphæðir og greint hefur verið frá í tilfelli starfsmanna Kaupþings. Þrír stjórnarmenn Glitnis fá þá hver um sig 25% heildarupphæðar kaupaukanna, en almennir starfsmenn, sem ekki telja fleiri en tíu, fá samtals 25% í sinn hlut.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í gær hefur þegar verið samþykkt kaupaukaáætlun fyrir stjórn og lykilstarfsmenn LBI, sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans.
Kaupþing er þar af leiðandi eina eignarhaldsfélag gömlu bankanna sem ekki hefur komið á sérstakri kaupaukaáætlun fyrir framkvæmdastjóra og stjórn þess. Heimildir Morgunblaðsins herma að ætlunin sé þó að tillaga þess efnis verði lögð fram á næsta eða þarnæsta hluthafafundi.