Norðmenn kaupa 50% í Arctic Fish

Norska fiskeldisfyrirtækið Norway Royal Salmon (NRS) er að kaupa helmingshlut í vestfirska fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish.

Samkvæmt tilkynningu NRS til kauphallarinnar í Ósló greiðir fyrirtækið 29 milljónir evra fyrir 50% hlut í Arctic Fish en annað hlutafé er í eigu eignarhaldsfélaganna Bremesco Holding og Novo (47,50% og 2,50%). Þetta kemur fram á vefnum Undercurrent News.

Bremesco Holding er í eigu Jerzy Malek, sem stofnaði pólska laxeldisfyrirtækið Morpol. Malek færði út laxeldiskvíarnar í Noregi og Bretlandi en seldi fyrirtækið síðar til Marine Harvest.

Malek vildi ekki tjá sig um viðskiptin á Íslandi við Undercurrent News. Malek er stjórnarformaður Arctic Fish en þegar kaup NRS á helmingshlut í fyrirtækinu ganga í gegn verður nýr stjórnarformaður valinn. Aðrir í stjórn verða tveir fulltrúar frá NRS og tveir frá Bremesco. 

Engar breytingar verða gerðar á framkvæmdastjórn Arctic Fish og verður Sigurður Pétursson, stofnandi Arctic Fish, áfram framkvæmdastjóri. 

Í frétt Undercurrent News kemur fram að NRS fylgir hér í fótspor keppinautar, norska eldisfyrirtækisins SalMar, en fyrirtækið keypti 235 hluti í Arnarlaxi í vetur og í vor var tilkynnt um að Arnarlax hefði keypt Fjarðalax.

Í Morgunblaðinu í vor kom fram að stefnt væri að skráningu sameinaðs fyrirtækis á markað innan tveggja ára. 

Sameinað fyrirtæki starfar undir merkjum Arnarlax og höfuðstöðvar þess eru á Bíldudal. SalMar er kjölfestufjárfestir ásamt Matthíasi Garðarssyni og Kristian Matthíassyni, stærstu eigendum Arnarlax. Kristian verður forstjóri félagsins. Kjölfestufjárfestir Fjarðalax mun einnig verða hluthafi. Fjarðalax er með sjókvíaeldi í þremur fjörðum Vestfjarða og er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins. 

Vefur Arctic Fish

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK