Plain Vanilla-skrifstofu á Íslandi lokað

Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla.

Íslensku skrifstofu íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Plain Vanilla, sem framleiðir spurningaleikinn QuizUp, mun verða lokað. Starfsfólki var sagt frá fyrirhugaðri lokun fyrirtækisins í morgun og fengu allir 36 starfsmenn uppsagnarbréf.

Fram kemur í tilkynningu, að frá áramótum hafi orðið mikil umskipti á rekstri Plain Vanilla og tekjur aukist mikið en enn hafi þó verið halli á rekstrinum því kostnaðurinn við að viðhalda samfélagi notenda innan leiksins var mikill.

Rekstrarforsendur brustu

„Vonir stóðu til að reksturinn yrði sjálfbær þegar notendum fjölgaði samhliða áætlaðri frumsýningu sjónvarpsþáttaraðar undir merkjum QuizUp á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC næsta vor en þegar ljóst var að ekki yrði af framleiðslu þáttarins brustu rekstrarforsendur til frekari fjármögnunar og þróunar á QuizUp hér á landi.

Plain Vanilla mun halda QuizUp gangandi áfram og leitað verður leiða til að þróun leiksins geti haldið áfram þrátt fyrir að ekki verði af sjónvarpsþættinum og þrátt fyrir lokun skrifstofunnar hér á landi.

Tilkynnt var síðasta haust að Plain Vanilla og NBC hefðu náð samkomulagi um framleiðslu spurningaþáttar að nafni QuizUp og átti þátturinn að hefja göngu sína á NBC hinn 5. mars nk. Búið var að panta 13 þætti sem áttu að vera á dagskrá á sunnudagskvöldum kl. 19.00 vestanhafs og hafði starfsfólk frá Plain Vanilla unnið að þróun þáttarins, bæði hér heima og í stúdíói sjónvarpsrisans í Hollywood, síðustu mánuði. Að auki var búið að selja sýningarrétt þáttarins til helstu markaðssvæða eins og Bretlands, Frakklands, Chile, Argentínu og Nýja-Sjálands.

80 milljónir hafa hlaðið niður QuizUp og enn bætast 20.000 nýir notendur við leikinn á dag. Í tengslum við þróun leiksins sköpuðust tæplega 100 tæknistörf á Íslandi þegar mest var og hafa stofnendurnir komið með 5 milljarða króna frá erlendum fjárfestum inn í íslenskt hagkerfi,“ segir í tilkynningu.

Settu of mörg egg í körfu NBC

„Við höfum alltaf lagt mikið undir og uppskorið eftir því. Í þetta skiptið veðjuðum við á viðamikið samstarf við sjónvarpsrisann NBC. Segja má að við höfum sett of mörg egg í þessa NBC körfu en við höfum eytt miklum tíma og orku í þróun sjónvarpsþáttarins. Þegar ég fékk skilaboðin frá NBC um að hætt yrði við framleiðslu þáttarins þá varð um leið ljóst að forsendur fyrir frekari rekstri, án umfangsmikilla breytinga, væru brostnar. Eftir stendur að síðustu ár hafa verið ótrúlegt ævintýri fyrir mig og alla þá sem komu að Plain Vanilla. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að vinna með ótrúlega hæfileikaríku fólki á þessari vegferð. Ég er spenntur að sjá hvað starfsfólk Plain Vanilla tekur sér fyrir hendur í framtíðinni og er handviss um að fjöldi nýrra fyrirtækja verður stofnaður af þessum hóp sem hefur fengið frábæra reynslu hjá okkur undanfarin ár,” segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK