Valdahugtakið eins og við höfum þekkt það hjá stjórnendum fyrirtækja er farið að þynnast og forstjórar hafa síður skýrt umboð til allra ákvarðana heldur sækja þeir það á samræðuvettvangi við stjórn og eigendur félagsins. Með aukinni breidd í stjórnum félaga, meðal annars eftir að kynjakvóti var settur á fyrir nokkrum árum, hefur ákvarðanataka orðið vandaðri ef við gefum okkur að fjölbreytt sýn á málin sé til langs tíma gæði. Þetta segir Helga Hlín Hákonardóttir ráðgjafi einn eigandi ráðgjafafyrirtækisins Strategíu og skipuleggjandi Strategíudagsins í Hörpu á morgun.
Helga Hlín hefur sjálf mikla reynslu af stjórnarstörfum, en hún hefur meðal annars verið í stjórnum WOW air, Skeljungs, Summu rekstrarfélags, Kaupáss og í háskólaráði HA. Þá hefur hún starfað sem lögmaður víða í fjármálalífi landsins, bæði fyrir og eftir hrun.
Þróunin í dag er á þann veg að samfélagið vill ekki vega og meta allt í Excel og segir hún það leiða af sér að nútíma stjórnendur séu miðaðri á kúnnana og að breyta til í takt við óskir þeirra í stað þess að keyra fyrirtækið að innan. Segir hún þessa hugmyndafræði ekki bara eiga við hér á landi eftir efnahagshrunið, heldur sé þetta alþjóðlegt. „Þetta eru ekki lengur bara „stand alone“ valdamiklir forstjórar,“ segir Helga Hlín, heldur eru það valdamiklar og breiðar stjórnir sem styðja við forstjóra. Með þessu hefur núverandi skilningur fólks á valdahugtakinu þynnst út og á ekki lengur við um einvaldsstjórnanda að sögn Helgu Hlínar.
Segir hún mikið vatn hafa runnið til sjávar í þessum efnum undanfarin ár og þá sérstaklega eftir bankahrunið og þegar stjórnarmönnum varð fyllilega ljóst að þeirra var ábyrgðin. „Allir sem hafa starfað í stjórnum lengur en frá hruni, við sjáum mikla breytingu á dýptinni á störfum stjórna,“ segir hún og bendir á að meiri stemning sé nú fyrir því að dýpka þekkingu stjórnarmanna á starfi sínu í stjórnum og fyrir ákvarðanatöku.
Í dag er meira gert úr því að setja saman stjórnir ólíkra aðila að sögn Helgu Hlínar. Þannig sé stjórn að jafnaði skipuð fimm einstaklingum sem hittast einu sinni í mánuði og segir hún að til að búa til einingu sem er hvað mest virðisaukandi fyrir fyrirtækið sé t.d. oft leitað til eins aðila „úr bransanum“ og svo fengnir lögfræðingar, endurskoðendur, einstaklingar á vegum fjárfesta o.s.frv. Áður hafi stjórnir oftar en ekki raðast upp eingöngu af lögfræðingum segir hún. „Það er klárlega meiri breidd í stjórnum í dag, bæði út frá kynjum og líka starfssviðum.“
Helga Hlín segir að ef fjölbreytt stjórn til marks um gæði til langs tíma í því ljósi að vönduð ákvarðanataka sé sú sem sé gaumgæfð af fjölbreyttum hópi fólks þá hafi tekist ágætlega upp hér undanfarin ár. Bendir hún á að margir lífeyrissjóðir hafi t.a.m. látið heyra í sér á hluthafafundum um þetta.
Hún segist þó vilja sjá skrefið stigið lengra í málefnum þar sem lífeyrissjóðir eða ríki eigi hlut að máli, enda sé þar verið að fara með fjármuni annarra. Segir hún að í Evrópu sé verið að skoða að setja reglur um að stofnanafjárfestar gefi út eigendastefnu sína og hvernig þeir ætli að vera virkir eigendur. Þá komi meðal annars fram hverja þeir styðji í kjöri til stjórnar og af hverju.
Segir Helga Hlín að mikilvægar upplýsingar geti falist í þessu, en auk þess fái þetta umræðu upp á borðið og þannig myndist aðhald og í framhaldinu umræða og samskipti ef menn eru ekki sáttir. Segir hún þetta meðal annars vinna gegn klíkuráðningum. Þá hreinsi maður alltaf eitthvað í burtu með að kveikja ljósin og sópa úr hornum. „Betur sjá augu en auga og þetta snýst um traust. Með þessu fá þeir endurgjöf á það sem þeir eru að gera,“ segir hún og bætir við að þá séu lífeyrissjóðirnir fljótari að beygja af rangri braut ef til þess kemur.
Meðal þeirra sem hafa tekið þetta upp hér á landi eru lífeyrissjóðirnir Gildi og Stefnir, en Helga Hlín segir að gera megi betur. Með eigendastefnu og frekari upplýsingagjöf sé líka stigið skrefið um að lífeyrissjóðir séu virkir fjárfestar, þó hún taki fram að þeir eigi ekki endilega að vera áhrifafjárfestar. Í þessum mun felst að sjóðirnir hafi ákveðna skoðun á stjórnarháttum, t.d. launagreiðslum til stjórnenda og afstöðu til arðgreiðslu. Á meðan hafa áhrifafjárfestar skoðun á daglegum rekstri félagsins.
Spurð um þróun mála í tengslum við stjórnir og stjórnarmenn hér á landi undanfarna tvo áratugi segir Helga Hlín að þegar hún hafi fyrst byrjað að vinna á fjármálamarkaði fyrir 20 árum hafi menn byrjað að tala um kynjakvóta en ekkert hafi orðið úr því. Það hafi því miður þurft að setja á kynjakvóta, en að hennar mati séu áhrif þeirra tvímælalaust góð. Segir hún að síðustu 3 ár hafi eftirspurnin eftir því að fagaðilar veiti stjórnarfólki ráðgjöf um störf stjórna og fagleg vinnubrögð. Þetta sé önnur staða en hafi stundum áður þekkst sem „stimpilstjórnir,“ þ.e. stjórnir sem stimpluðu upp á það sem forstjórarnir báðu um en voru ekki með neinar spurningar, innlegg eða athugasemdir.
„Fólk er að taka þetta alvarlega sem eiginlegt starf,“ segir Helga Hlín og bendir hún á að eftir hrun hafi menn séð aðra dæmda í héraðsdómi til skaðabóta eða fangelsis vegna afglapa í starfi.
Segir hún umhverfi stjórna einnig hafa breyst. Í dag sé auðveldara að bera upp skoðanir í stjórnum og óska eftir gögnum frá forstjórum eða framkvæmdastjórum. Þegar stjórnir fái auknar upplýsingar verði allir betur að sér í málefnum fyrirtækisins og þannig séu betri ákvarðanir teknar.