Starfsemi Plain Vanilla á Íslandi heldur áfram um sinn þrátt fyrir að allir starfsmenn fyrirtækisins hafi fengið uppsagnarbréf fyrir síðustu mánaðamót. Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri Plain Vanilla, segist gera ráð fyrir að fyrirtækinu verði endanlega lokað hér á landi um áramótin.
„Við erum að keyra Quizup áfram og við erum að vinna í því að færa hann annað,“ segir Þorsteinn við Mbl.is en hann gerir ráð fyrir að starfsemin á Íslandi haldi áfram í einhverja mánuði enn.
„Ég myndi ætla að það verði endanlega búið að loka um áramótin, myndi ég halda,“ segir Þorsteinn.
Viðræður eru nú í gangi um mögulega sölu á snjalltækjaleiknum Quizup sem Plain Vanilla er helst þekkt fyrir. Veltur það á niðurstöðum þeirra hvenær og hvernig undið verður ofan af fyrirtækinu. Þorsteinn segir að Quizup búi til töluvert af tekjum á hverjum degi og hluti af því að loka fyrirtækinu sé að selja eignir þess.
„Það er ekki alveg nákvæmlega ljóst hvort fyrirtækið verði lagt niður eða haldið áfram í einhvers konar rekstri. Í núverandi formi verður því lokað og þess vegna fékk allt starfsfólk uppsagnarbréf um síðustu mánaðamót,“ segir Þorsteinn.
Í viðtali við Mbl.is í lok síðasta mánaðar sagði Þorsteinn að forsendur rekstrar Plain Vanilla hafi brostið þegar bandaríska sjónvarpsstöðin NBC hætti við framleiðslu Quizup-spurningaþáttar sem unnið hafði verið að í tvö ár.