HR fær 5 milljónir frá Viðskiptaráði

Styrkþegar ásamt valnefnd.
Styrkþegar ásamt valnefnd.

Há­skól­inn í Reykja­vík fékk í gær fimm millj­ón­ir króna út­hlutaðar úr rann­sókn­ar­sjóði Viðskiptaráðs Íslands. Alls var ell­efu millj­ón­um króna út­hlutað til fjög­urra verk­efna. Styrkj­un­um er ætlað að auka sam­keppn­is­hæfni Íslands með því að efla rann­sókn­ir og ný­sköp­un sem nýt­ast ís­lensku mennta­kerfi og at­vinnu­lífi. 

Eft­ir­tald­ir aðilar hlutu styrk úr sjóðnum:

Há­skól­inn í Reykja­vík - 5.000.000 kr.
Há­skól­inn í Reykja­vík hlýt­ur styrk vegna sam­starfs­verk­efn­is við Massachusets Institu­te of Technology (MIT) og at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið sem felst í grein­ingu á um­hverfi ný­sköp­un­ar á Íslandi og gerð til­lagna um hvernig best sé að efla það þannig að landið verði sam­keppn­is­fært í heimi mik­illa og hraðra breyt­inga. Kjarnateymi, skipað full­trú­um at­vinnu­lífs, há­skóla, fjár­festa, frum­kvöðla og stjórn­valda, mun vinna með sér­fræðing­um MIT og mun skila af sér skýr­um og fram­kvæm­an­leg­um til­lög­um til úr­bóta, byggðum á víðtækri þekk­ingu er­lendra sér­fræðinga og ná­kvæmri grein­ingu á þeim séraðstæðum sem eru á Íslandi.

Ólaf­ur Þór Ævars­son og Ragn­heiður Guðfinna Guðna­dótt­ir - 3.000.000 kr.
Ólaf­ur og Ragn­heiður hljóta styrk til að fram­kvæma rann­sókn á al­gengi streitu og streitu­tengdra vanda­mála á ís­lensk­um vinnu­markaði. Þróa á aðferð til að mæla al­gengi sjúk­legra ein­kenna streitu í fyr­ir­tækj­um á ónafn­greind­an hátt og leggja mat á af­leiðing­ar streitu á heilsu og rekst­ur fyr­ir­tækja. Rann­sókn­in mun auka þekk­ingu á streitu og hugs­an­leg­um af­leiðing­um henn­ar og get­ur þar með stuðlað að því að auka skil­virkni og verðmæta­sköp­un í ís­lensku at­vinnu­lífi.

Laga­deild Há­skóla Íslands og Hag­fræðistofn­un  - 1.500.000 kr. 
Laga­deild Há­skóla Íslands og Hag­fræðistofn­un hljóta styrk vegna rann­sókn­ar­verk­efn­is í norður­slóðarétti. Þunga­miðja verk­efn­is­ins hvíl­ir á sigl­ing­um og skipa­flutn­ing­um um norður­slóðir og áhrif­um þeirr­ar starf­semi m.a. á ís­lensk fyr­ir­tæki og efna­hags­líf. Mark­mið verk­efn­is­ins er að veita heild­stætt yf­ir­lit yfir marg­vís­leg laga­leg og efna­hags­leg álita­efni sem fylgja vax­andi um­svif­um á norður­slóðum.  

Lára Jó­hanns­dótt­ir - 1.500.000 kr.
Lára hlýt­ur styrk til að vinna að rann­sókn­ar­verk­efn­inu Ábyrg­ar fjár­fest­ing­ar ís­lenskra fjár­mála­fyr­ir­tækja. Í verk­efn­inu verður leit­ast við að skil­greina hvað ábyrg­ar fjár­fest­ing­ar eru, hvernig þær tengj­ast góðum stjórn­ar­hátt­um, hverj­ir séu hvat­ar sem liggja til grund­vall­ar ábyrg­um fjár­fest­ing­um, hverj­ar séu helstu hindr­an­ir fyr­ir því að fjár­festa á ábyrg­an máta, hver sé helsti ávinn­ing­ur­inn af ábyrg­um fjár­fest­ing­um og hver staða ábyrgra fjár­fest­inga sé hér á landi.

Rann­sókna­sjóður Viðskiptaráðs Íslands veit­ir ár­lega styrki til ein­stak­linga vegna rann­sókna og ný­sköp­un­ar sem tengj­ast framþróun mennt­un­ar og efl­ingu ís­lensks at­vinnu­lífs. Val­nefnd sjóðsins skipa Eggert Bene­dikt Guðmunds­son, Gísli Hjálm­týs­son og Ragn­hild­ur Geirs­dótt­ir, seg­ir enn­frem­ur í frétta­til­kynn­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK