Íslandsbanki hefur ráðið alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Corestar Partners ásamt fyrirtækjaráðgjöf bankans til ráðgjafar í tengslum við mótun framtíðarstefnu um eignarhlut bankans í Borgun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.
„Corestar Partners sérhæfir sig í fyrirtækjaráðgjöf á sviði greiðsluþjónustu og er með starfsstöðvar í Sviss og Þýskalandi. Möguleg niðurstaða ráðgjafarvinnunnar er að bankinn selji eignarhlut sinn í félaginu og færi slík sala þá fram í opnu og gagnsæju söluferli.
Íslandsbanki á 63,5% hlut í Borgun og er félagið flokkað sem dótturfélag bankans. Hreinar rekstrartekjur Borgunar voru um 4,7 milljarðar króna á árinu 2015 og hagnaður um 1,5 milljarðar króna. Samsvarar það um 10% af rekstrartekjum bankans og rúmlega 7% hagnaðar á því tímabili,“ segir í tilkynningunni.