Til stendur að opna The Laundromat Café á Laugarásvegi og hófust framkvæmdir í vor. Starfsemin hefur þó ekki fengið framkvæmdaleyfi þar sem ekki fæst samþykki nágranna í húsinu. Jóhann Friðrik Haraldsson, eigandi The Laundromat Café á Íslandi, segir þó almennt mjög mikla ánægju með tilvonandi opnunina í hverfinu og aðeins eigi þetta við ákveðinn hóp en sagt var frá málinu í Fréttatímanum í dag.
Fyrri frétt mbl.is: Laundromat opnar á Laugarásvegi
Í samtali við mbl.is segir Jóhann að það sé aðallega eigendur veitingahússins Laugaáss sem hafa sett sig upp á móti þeim breytingum sem opnun kaffihússins myndi hafa í för með sér, þ.e. uppsetning hjólastólaramps og loftræstistokks fyrir utan húsið. „En þau eru í raun að mótmæla opnunartíma kaffihússins en þeim finnst hann of langur,“ segir Jóhann en til stendur að hafa kaffihúsið opið milli klukkan átta á morgnanna til ellefu á kvöldin.
Að sögn Jóhanns var farið í töluverðar framkvæmdir á húsnæðinu við hljóðeinangrun. „Við sýndum þeim það og höfum reynt að benda þeim á að við verðum ekki með háværa tónlist eða einhver læti. Þetta er ekki einhver pöbb þar sem verður djamm, heldur bara lágstemmd stemmning.“
Eins og fyrr segir segist Jóhann hafa fundið fyrir mjög jákvæðu viðhorfi fólks í hverfinu gagnvart tilvonandi opnun. „Það virðist sem að það séu helst þessir næstu nágrannar sem eru eitthvað hræddir við þetta en það er alveg ástæðulaust fyrir þau að hræðast. Það mun alltaf vera einhver rekstur þarna, hvort sem það er kaffihús eða eitthvað annað.“
Hann segist þó vera bjartsýnn á að framkvæmdaleyfið fáist á endanum en í dag var boðað til húsfundar í húsinu þar sem málið verður rætt enn frekar.