Í dag var tilkynnt um mistök hjá Hagstofunni þar sem tólf mánaða taktur verðbólgunnar hafi verið umtalsvert vanmetinn síðustu sex mánuðina. Er villan rekin til verðbólgutalna frá mars og að villan hafi síðan þá verið hluti af vísitölunni og því sýnt hana lægri en annars hefði verið. Mistökin hafa í raun áhrif á allar verðtryggðar fjárskuldbindingar (sem eru bundnar við vísitölu neysluverðs). En hvað þýðir það í raun?
Verðbólga í september mældist 1,8% og hækkaði úr 0,9% frá ágúst. Greiningaraðilar höfðu flestir spáð óbreyttri vísitölu og því má gróflega áætla að uppsöfnuð hækkun hafi numið um 0,9 prósentustigum.
Það er þó ekki þannig að þessi villa hafi skilað tapi eða hagnaði upp á 0,9% fyrir eigendur eða skuldara verðtryggðra fjárskuldbindinga. Þar sem villan var löguð núna í septembermánuði eru áhrifin fyrst og fremst að 0,9% breytingin kemur í einum skell í stað þess að koma í minni skrefum yfir hálfs árs tímabil.
Þá hefur þetta áhrif á vexti af verðbótum á þessu tímabili sem mistökin stóðu yfir. Það er ómögulegt að gera sér fulla grein fyrir heildarumfangi þessara áhrifa en hér verða nokkur dæmi nefnd, en í þeim er gert ráð fyrir að ekki verði farið í afturvirkar aðgerðir.
Það sem flækir málið svo talsvert meira er innlánastofnanir, lífeyrissjóðir og fleiri sem hafa lánað verðtryggt hafa einnig fjármagnað sig með verðtryggðum lánum og þannig fer útreikningur í þessu máli að bíta sig í skottið þar sem peningur fer úr einum vasa en kemur inn í hinn vasann.
Í samtali við mbl.is sagði Hermann Jónasson, forstjóri ÍLS, að sjóðurinn væri að skoða málið, en að þó ljóst væri að það myndi hafa einhver áhrif væri það í báðar áttir fyrir sjóðinn. Hann ætti bæði eignir og skuldir sem væru verðtryggðar og því ættu þeir eftir að finna út hver niðurstaðan fyrir sjóðinn væri í raun af þessu máli.