Blásið úr öllu samhengi

Sá sem skuldaði 10 milljónir króna í lok apríl græðir 317 krónur á mistökum Hagstofunnar sé miðað við 4% vexti en uppsafnaður munur vegna verðbóta sem leggjast á í maí og fram í október eru 32.240 krónur. Þetta kemur fram í útreikningum tölvunarfræðingsins Marinós G. Njálssonar sem segir um að ræða aðeins smávægilega skekkju sem mun engin áhrif hafa á neytendur.

Greint var frá mistökum Hagstofunnar í gær og hafa þau verið sögð afdrifarík. Til að mynda sagði Ingólf­ur Bend­er, for­stöðumaður Grein­ing­ar Íslands­banka að skekkjan myndi hafa áhrif á neytendur en mistökin urðu til þess að 12 mánaða takt­ur verðbólg­unn­ar hef­ur verið um­tals­vert van­met­inn und­an­farið hálft ár. Ársverðbólga mæl­ist í sept­em­ber 1,8% en í ág­úst var verðbólg­an 0,9%.

Virkar bara fyrir þá mánuði sem seinkunin var

Marinó lítur svo á að það sem hafi gerst var að hækkun reiknaðrar húsaleigu seinkaði um einn mánuð, þ.e. 0,06% áhrif á vísitölu neysluverðs sem áttu að koma í mars komu í apríl. Hækkunin í apríl átti að vera 0,16% en var sýnd 0,06%, þannig að það vantaði 0,1% í vísitölu neysluverðs.

Marinó vakti athygli á útreikningum sínum á Facebook en í samtali við mbl.is segist hann hafa farið inn á vef Hagstofu í gær og skoðað hver vísitala reiknaðar húsaleigu hefði átt að vera.

 „Ég bara færði vísitöluna aftur um einn mánuð og reiknaði út mismuninn á því samkvæmt birtum tölum og nýjum tölum,“ segir Marinó í samtali við mbl.is.

„Í íslensku þjóðfélagi sem er vant því að verðbólga hoppi niður um 1-4% á stuttum tíma er þetta minniháttar skekkja,“ segir hann og bætir við að menn séu að blása þetta mál úr öllu samhengi. „Það má ekki gleyma því að það er búið að leiðrétta þetta þannig að skekkjan virkar bara fyrir þessa mánuði sem seinkunin var.“

Ekkert óvænt í verðbólguþróuninni

Að mati Marinós verður uppsöfnuð skekkja hjá þeim sem skulduðu 10 milljóna króna verðtryggt lán í apríl 32 þúsund krónur í október en þá eru verðtryggð lán miðuð við vísitöluna í október. Gerir Marinó ráð fyrir því að skekkjan leiðréttist hinsvegar í nóvember.

Þá segir hann það hafa verið fyrirséð að verðbólgan myndi hækka seinnihluta árs. „Ársverðbólgan samanstendur af tólf verðbólgumælingum. Ef þú þekkir sex eða níu þeirra veistu hvert hinar þrjár munu taka þig, innan vikmarka. Það er ekkert óvænt að gerast í verðbólguþróun, eina er það að við fengum upplýsingar um ákveðna verðbólguþróun mánuði seinna en við hefðum annars gert,“ segir Marinó.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK