Ofspáin í raun minni en talið var

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 5,25%.

„Sem fyrr er gert ráð fyrir miklum hagvexti á þessu og næsta ári og benda nýjustu vísbendingar til þess að vöxturinn sé jafnvel kröftugri en áður hafði verið gert ráð fyrir. Þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar hefur verðbólga haldist undir markmiði um tveggja og hálfs árs skeið. Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga, aðhaldssöm peningastefna og hækkun gengis krónunnar, þrátt fyrir töluverð gjaldeyriskaup Seðlabankans, hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðbólgu.

Í september mældist verðbólga 1,8% og jókst hún töluvert frá fyrri mánuði. Að hluta endurspeglar það leiðréttingu á skekkju í verðbólgumælingum Hagstofu Íslands á tímabilinu mars til ágúst sl. Ofspá Seðlabankans á verðbólgu fram eftir ári var því í raun minni en áður var talið. Verðbólguhorfur hafa þó líklega lítið breyst frá þeirri spá sem bankinn birti í ágúst enda hefur gengi krónunnar hækkað enn frekar og verðbólguvæntingar eru áfram við verðbólgumarkmiðið.

Líkur á vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og óvissa í tengslum við losun fjármagnshafta kalla á varfærni við ákvörðun vaxta. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun því ráðast af efnahagsþróuninni og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta,“ segir í yfirlýsingu frá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK