Bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors hefur náð samningum við Novator um kaup á öllu hlutafé í fjarskiptafyrirtækinu Nova. Samningar eru háðir hefðbundnum fyrirvörum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Novator.
Pt Capital Advisors er dótturfélag Pt Capital. Fyrirtækið, sem er með aðsetur í Anchorage, Alaska, leggur megin áherslu á fjárfestingar á norðurslóðum. Nova er fyrsta fjárfesting Pt Capital Advisors hér á landi, að því er segir í tilkynningunni.
Björgólfur Thor Björgólfsson er eigandi Novator og stofnaði Nova árið 2006, en fyrirtækið hóf rekstur í desember árið 2007. Segir í tilkynningunni að Nova hafi frá upphafi verið fjármagnað með eigin fé og allan tímann verið í fullri eign Novators og stjórnenda Nova. Novator á tvö önnur fjarskiptafyrirtæki, Play í Póllandi og WOM í Chile, með 17 milljón viðskiptavini samtals.
„Við ætlum okkur að styðja vel við stjórnendur og stefnu fyrirtækisins, þróa félagið inn á nýjar brautir og leggja áherslu á að viðskiptavinir Nova verði áfram ánægðustu viðskiptavinir í farsímaþjónustu á Íslandi,“ er haft eftir Hugh S. Short, stofnandi og stjórnarformanni Pt Capital.
Björgólfur Thor segist stoltur af uppbyggingu fyrirtækisins. „Nova er sterkt fyrirtæki og ég er stoltur af uppbyggingu þess og þeim störfum sem það hefur skapað sl. áratug. Sú samkeppni, sem fyrirtækið veitti þeim sem fyrir voru á markaði, hefur leitt til lægri farsímakostnaðar og betri þjónustu hér á landi. Það er sérstaklega ánægjulegt að erlendir fjárfestar með reynslu af farsímamarkaði telji góðan kost að taka þátt í íslensku viðskiptalífi. Slík innspýting í íslenskan efnahag er afar mikilvæg.“