Áreitni, ógnanir og engar klósettferðir er meðal þess sem fyrrverandi starfsmaður Wells Fargo greindi frá í gær þegar hann kom fram fyrir þingnefnd í Kaliforníu til þess að lýsa gamla vinnustaðnum sínum. Wells Fargo hefur verið í umræðunni síðustu vikur eftir að hann var sektaður fyrir að hafa stofnað tvær milljónir reikninga án vitundar eða leyfis viðskiptavina til þess að ýta undir sölutölur.
Nathan Todd Davis kom fram fyrir nefndina í gær en hann starfaði hjá bankanum í áratug. Þá kvartaði hann formlega yfir hegðun yfirmanna sinna fimmtíu sinnum án þess að eitthvað var gert.
„Ég hef orðið fyrir áreitni, ógnað og neitað um klósettpásur,“ sagði Davis, sem ók 560 kílómetra til þess að koma fram fyrir nefndina.
„Það þarf að rannsaka menninguna í kringum söluna hjá Wells Fargo,“ sagði Davis sem hélt því m.a. fram að tveir þriðju af starfsmönnum bankans hefðu svindlað á kerfinu vegna óraunhæfra söluvæntinga og þrýstings frá yfirmönnum.
Eftir áratug í starfi hjá bankanum sagðist Davis hafa verið rekinn í júní á þessu ári fyrir „að koma 90 sekúndum of seint“. Þá sagði hann einnig að hann hafi aldrei fengið stjórnunarstöðu hjá bankanum þar sem hann vildi ekki svindla.
David Galasso, stjórnarmaður bankans, kom fram fyrir nefndina í morgun í stað bankastjórans John Strumpf. Bankinn hefur ekki sagst ætla að svara ásökunum einstaklinga en sagði í tilkynningu að það væri markmið bankans að láta starfsmenn líða vel.
Búið er að reka rúmlega 5.000 starfsmenn bankans eftir að hneykslið kom upp og var bankinn sektaður um 185 milljónir bandaríkjadali.