Suðurkóreski snjallsímaframleiðandinn Samsung Electronics gaf í dag út afkomuviðvörun fyrir þriðja ársfjórðung og hefur lækkað spá um hagnað ársfjórðungsins um 33,3%. Afkomuviðvörunina má rekja til martraðarinnar sem herjað hefur á fyrirtækið vegna Galaxy Note 7-snjallsímans. Í gær var ákveðið að hætta alveg framleiðslu á símanum eftir að kviknað hafði í símum vegna galla í rafhlöðu.
Samsung gerir nú ráð fyrir að hagnaður félagsins nemi 4,6 milljörðum Bandaríkjadala á tímabilinu en í síðustu viku hljóðaði spáin upp á þriðjungi hærri fjárhæð. Það sem af er viku hafa hlutabréf fyrirtækisins lækkað um 10% í verði.