Bankastjóri Wells Fargo, John Stumpf, hefur hætt störfum hjá bankanum vegna hneykslis sem snýr að söluhegðun bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum sem BBC vitnar í.
Bankinn rannsakar nú hvernig starfsfólk hans gat opnað tvær milljónir reikninga án leyfis viðskiptavina.
Í síðasta mánuði greindi bankinn frá því að Stumpf, sem þénaði 19,3 milljónir bandaríkjadala eða um 2,2 milljarða íslenskra króna, á síðasta ári, myndi ekki fá greidd laun á meðan rannsóknin stæði yfir. Timothy Sloan, núverandi forseti bankans og rekstrarstjóri, mun taka við Stumpf en Stephen Sanger mun taka við sem stjórnarformaður bankans í stað Stumpf.
Í síðasta mánuði var Wells Fargo sektaður um 185 milljónir bandaríkjadala, andvirði 21 milljarðs íslenskra króna og sakaður um að hafa brotið lög. Er þetta hæsta sekt sem fjármálaeftirlit Bandaríkjanna hefur gefið út.
„Þó að ég hafi verið skuldbundinn og einbeittur að því að stjórna bankanum í gegnum þetta tímabil hefur ég ákveðið að það sé best fyrir fyrirtækið að ég stígi til hliðar,“ er haft eftir Stumpf en bankinn hefur látið reka rúmlega 5.000 starfsmenn eftir að málið kom upp.