Bæði Icelandair og WOW air hafa ákveðið að banna Samsung Galaxy Note 7 farsíma um borð í flugvélum sínum líkt og fleiri flugfélög víða um heim hafa gert. Icelandair vísar til þess á vefsíðu sinni að samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hafi bannað slíka síma um borð í flugvélum vegna bilana sem komið hafa upp í þeim og innköllunar þeirra.
„Því er ekki heimilt að hafa þá með um borð, hvorki í handfarangri né innrituðum farangri. Farþegum sem reyna vísvitandi að fara á svig við þessar reglur og ferðast með þessi tæki til Bandaríkjanna og Kanada, verður vísað frá borði,“ segir ennfremur en Icelandair hefur uppfært skilmála sína vegna farangurs til samræmis við þetta.
WOW air greinir frá því sama á Facebook-síðu sinni í kvöld. Samsung Galaxy Note 7 símar séu ekki leyfilegir um borð í flugvélum félagsins. Hvort sem farþegar hafa símana á sér, í handfarangri eða í farangri sem geymdur er í farangursrými.
Fjölmörg dæmi eru um að kviknað hafi í farsímunum vegna ofhitnunar. Hafa margir slasast af þeim sökum. Það hefur jafnvel gerst í tilfelli síma þar sem skipt hafði verið um rafhlöður og settar í staðinn rafhlöður sem áttu að vera öruggar. Samsung hefur fyrir vikið stöðvað framleiðslu símans. Sér fyrirtækið fram á gríðarlegt tap vegna málsins.