Erlendir krónueigendur bíða eftir kosningum

Bandarískir fjárfestar, sem eru síðasta hindrunin svo hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum að fullu, vonast til þess að kosningarnar um helgina verði til þess að lausn náist í þessari deilu sem hefur staðið lengi. Þetta kemur fram í frétt Financial Times þar sem fjallað er um gjaldeyrishöftin sem sett voru í fjármálahruninu hér á landi.

Fjórir bandarískir sjóðir, sem fara með um 1,5 milljarða Bandaríkjadala af skuldum íslenska ríkisins, hafa sakað Ísland um að hegða sér á svipaðan hátt og Argentína í deilunni um afléttingu haftanna. Bæði ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki Íslands hafna kröfum þeirra og segja að ef gjaldeyrishöftunum verði aflétt of hratt geti það valdið hruni íslensku krónunnar.

Ísland varð fyrsta landið til þess að setja gjaldeyrishöft á, þegar fjármálakreppan reið yfir árið 2008 og þrír helstu viðskiptabankar landsins féllu. Með höftunum eru hömlur lagðar á flæði fjármagns til og úr landi.

FT segir að búist sé við því að stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ljúki eftir kosningar og sérfræðingar segi að Píratar geti farið með sigur af hólmi í kosningunum. Aftur á móti sé óvíst hverjir myndi næstu ríkisstjórn og eins hver styrkur hennar kunni að vera. Skoðanakannanir bendi til þess að allt að sjö stjórnmálaflokkar muni eiga fólk á þingi á næsta kjörtímabili.

Íslensk yfirvöld buðu erlendum krónueigendum að taka þátt í aflandskrónuútboði í júní, þar á meðal fjórum fyrrnefndum sjóðum: Autonomy Capital, Eaton Vance, Loomis Sayles og Discovery Capital Management. 

Af­l­andskróna­eig­end­ur gerðu til­boð um sölu á inn­lend­um eign­um sín­um og kaup á er­lend­um gjald­eyri, en útboðið er liður í heild­stæðri aðgerðaáætl­un stjórn­valda um los­un fjár­magns­hafta. Var þetta síðasta útboðið þar sem eig­end­um af­l­andskróna býðst að kaupa er­lend­an gjald­eyri áður en stjórn­völd hefja los­un hafta á inn­lenda aðila: líf­eyr­is­sjóði, fyr­ir­tæki og ein­stak­linga.

Sjóðirnir Autonomy og Eaton Vance hafa lagt fram kvörtun til EFTA þar sem því er haldið fram að aðgerðir innlendra stjórnvalda mismuni erlendum fjárfestum.

„Um leið og rykið sest og nýtt fólk verður í ríkisstjórn eigum við von á að öðruvísi verði horft á málin,“ segir Pétur Örn Sverrisson, lögmaður sjóðanna, í samtali við FT. Hann segir að í hans huga sé engin skynsamleg skýring á því að þetta taki svona langan tíma. 

Ásgeir Jónsson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir í samtali við FT að Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafi gert mistök og fyllst of miklu sjálfstrausti á samningsstöðu sinni. „Fjárfestarnir hafa metið ástandið mjög vel,“ segir Ásgeir.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ríkisstjórnin muni áfram greiða skuldir sínar til fulls og að fjárfestar geti selt krónur sínar hvenær sem er. 

Aldo Abram, yfirmaður Libertad y Progreso, argentínskrar hugveitu, ráðleggur Íslendingum að greiða skuldir sína til að koma í veg fyrir að vera líkt við Argentínu, sem nokkrir sérfræðingar hafa þegar gert. „Ísland er ekki Argentína en er að taka fyrstu skrefin í sömu átt,“ hefur FT eftir honum.

Þessu hafnar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og segir að Ísland hafi ekki gert neitt líkt og því sem Argentína gerði. „Við féllum ekki,“ hefur FT meðal annars eftir Bjarna. Hann segir að Seðlabankinn muni meta það á fyrri hluta næsta árs hvort hægt sé að bjóða betur. Það sé sama hver þjóðin er - eignir upp á 10% af vergri landsframleiðslu skipti verulegu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK