Augljóst er að eigendur Samsung ætla ekki að láta Galaxy Note 7 snjallsímahneykslið stöðva sig því í kjölfar þess að tilkynnt var um samdrátt í rekstri var greint frá því að Lee Jae-Yong, sonur stjórnarformanns Samsung, myndi setjast í framkvæmdastjórn félagsins.
Erfingi Samsung-veldisins, Lee Jae-Yong, er 48 ára gamall og er varaformaður stjórnar Samsung Electronics. Áhrif hans hafa vaxið mjög innan fyrirtækisins á undanförnum misserum, en faðir hans, ættfaðir Samsung, Lee Kun-hee, fékk hjartaáfall árið 2014. Afi Lee, Lee Byung-chull, stofnaði Samsung á sínum tíma og þykir tilnefning Lees benda til þess að stjórnun fyrirtækisins sé að færast yfir til næstu kynslóðar.
„Ég tel að nýtt tímabil sé að hefjast. Fyrirtækið verður mun markaðsvænna,“ segir Lee í samtali við Bloomberg. Hlutabréf Samsung hækkuðu um rúm 2% í morgun.
Rekstrarhagnaður Samsung á þriðja ársfjórðungi nam 4,6 milljörðum Bandaríkjadala, sem er umtalsvert minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra (30% minni).
Þetta er í samræmi við afkomuviðvörun sem gefin var út fyrir tveimur vikum eftir að ljóst varð að Note 7-síminn heyrði sögunni til.
Samsung ákvað fyrr í mánuðinum að hætta algerlega framleiðslu á Galaxy Note 7-snjallsímum eftir að kviknað hafði í símum vegna galla í rafhlöðu. Björn Björnsson, markaðsstjóri Tæknivara sem flytja inn Samsung, sagði í samtali við mbl.is að símarnir hefðu ekki verið komnir í sölu hér á landi þegar gallinn kom í ljós en hugsanlega hefðu einhverjir Íslendingar keypt símann erlendis.
Gert er ráð fyrir því að þeir sem hafi keypt Note 7-síma geti fengið endurgreiðslu eða annan síma. Samsung innkallaði um 2,5 milljónir Note 7-síma í september eftir að skýrt var frá því að símar hefðu sprungið vegna gallans í rafhlöðunni.