Tugir einstaklinga á Íslandi létu erlend skattaskjólsfélög greiða kreditkortareikninga sína. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir aðferðina þekkta við að taka fé út úr aflandsfélögum. Þetta kemur fram í Fréttatímanum í dag.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir í samtali við Fréttatímann að embættið hafi fengið mörg mál inn á borð til sín þar sem fyrirtæki í skattaskjólum voru látin greiða kreditkortareikninga fyrir Íslendinga.
Í Fréttatímanum í gær var fjallað um að aflandsfélög á Tortola hafi greitt kreditkortareikninga fyrir einstaklinga í fjölskyldunni sem áttu útgerðina Sjólaskip. Kreditkortin voru þá gefin út af erlendum bönkum og tengd við erlenda bankareikninga sem voru skráðir á aflandsfélögin eða á einstaklingana sjálfa.
Bryndís segir að nokkur slík mál, þar sem einstaklingur lét aflandsfélag greiða kreditkortareikning fyrir sig, hafi farið til yfirskattanefndar og eins fyrir dóm. „Það er auðvitað alþekkt að fólk noti þessa leið til að ná peningum út úr aflandsfélögum.“
Eigendur Sjólaskipa eru bara tvö dæmi um einstaklinga í Panamaskjölunum sem fóru þessa leið við notkun á aflandsfélögum sem Mossack Fonseca stofnaði. Áður hefur verið greint frá því að fjárfestarnir Magnús Ármann og Sigurður Bollason hafi einnig gert þetta, segir ennfremur í Fréttatímanum í dag.