Stjörnufræðivefurinn heldur ótrauður áfram

"Vefurinn er mjög vel sóttur og gríðarlega mikið notaður af skólum. Það sést sérstaklega á veturna þegar heimsóknartíðnin eykst verulega,“ segir Sævar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Málið var leyst á besta mögulegan hátt. Söfnunin dugði til þess að borga alla skuldina,“ segir Sævar Helgi Bragason, eigandi Stjörnufræðivefsins í samtali við mbl.is en fyrr í mánuðinum urðu skiptalok á búi vefsins sem úrskurðaður var gjaldþrota í vor. Lýstar kröfur í búið, sem voru upp á 1,4 milljónir króna, voru hinsvegar allar afturkallaðar og því fær Stjörnufræðivefurinn að lifa áfram.

Eins og fram hefur komið á mbl.is var vefurinn úrskurðaður gjaldþrota vegna 450 þúsund króna skuld­ar sem rekja mátti til sól­myrkv­agler­augn­anna sem Stjörnu­fræðivef­ur­inn gaf og seldi í fyrra. Alls voru gler­aug­un 72 þúsund tals­ins en 54 þúsund stykki voru gef­in grunn­skóla­börn­um. Í kjölfar fregna af gjaldþrotinu hófst söfnun til styrktar vefsins og safnaðist nóg fyrir skuldinni og gott betur.

Fyrri frétt mbl.is: Gjaldþrot vegna sólmyrkvagleraugna

Fyrri frétt mbl.is: Komið nóg fyrir sólmyrkvaskuldinni

Sævar segir að það hafi tekið smá tíma að ganga frá öllum atriðum málsins en vefurinn var formlega úrskurðaður gjaldþrota 22. apríl. Það var síðan 18. október sem skiptum á búinu lauk og eins og fyrr segir voru allar lýstar kröfur afturkallaðar.

Sævar segir nóg að gera við að halda uppi Stjörnufræðivefnum og stefnt er að því að halda áfram að miðla vísindum til landsmanna, sérstaklega íslenskra barna.

Hann segist finna fyrir auknum áhuga á stjörnufræði hér á landi og að mun fleiri virðist drífa sig út á kvöldin til þess að skoða norðurljós og stjörnur. „Vefurinn er mjög vel sóttur og gríðarlega mikið notaður af skólum. Það sést sérstaklega á veturna þegar heimsóknartíðnin eykst verulega,“ segir Sævar og bætir við að hann viti af skólum sem noti aðeins vefinn við kennslu á stjörnufræði í staðinn fyrir kennslubók. „Það er náttúrulega mjög ánægjulegt og skiptir máli,“ segir Sævar.

Hann segir málið hafa verið leyst á eins góðan hátt og mögulegt var. „Ég er auðvitað einstaklega þakklátur þeim sem lögðu okkur lið við að borga þessa blessuðu skuld fyrir þetta samfélagsverkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK