Liðlega eitt hundrað manns missa vinnuna um næstu áramót hjá lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði, en alls áætlar fyrirtækið að segja upp liðlega 250 manns á næstu mánuðum.
Í skriflegu svari frá Actavis við fyrirspurnum Morgunblaðsins kemur fram að þeir liðlega 100 starfsmenn lyfjaverksmiðjunnar sem hætta störfum um áramótin fái uppsagnarbréf í desembermánuði, en enn hafi engum starfsmanni verksmiðjunnar verið sagt upp. Líkt og greint var frá um mitt ár í fyrra er áætlað að lyfjaverksmiðjan hætti starfsemi um mitt næsta ár, en þar starfa nú tæplega 250 manns, sem allir munu missa vinnu sína.
Fram kemur í svari Actavis að þeir sem fái uppsagnarbréfi í desember muni „fá uppsagnarfrest greiddan, til samræmis við gildandi ráðningarsamning, án þess að til vinnuframlags þeirra komi“.
Fyrirtækið svarar spurningunni um hvenær uppsögnum þessara 250 starfsmanna verður lokið á eftirfarandi hátt: „Tímalínur varðandi áætluð starfslok eru mismunandi eftir eðli starfa og verkefnum hvers og eins. Þeim ætti að ljúka næsta vor eða sumar, allt eftir því hversu vel tekst til að flytja framleiðsluna á aðra framleiðslustaði, sem er flókið og langt ferli.“