Konum í álverinu fjölgar

Þegar Rebekka Rán Egilsdóttir sem starfar sem leiðtogi í álveri Fjarðaáls byrjaði að vinna þar fyrir rúmum áratug voru karlar í miklum meirihluta á vinnustaðnum. Síðan þá hefur hlutfallið jafnast og Rebekka sem starfar sem leiðtogi í um 20 manna hóp segir konur vera 8 talsins í honum. Hún hefur bæst í hóp Fagfólksins á mbl.is.

„Þegar ég byrjaði að vinna hérna var ég tuttugu og eins og þá var hér miklu meira af karlmönnum en stefnan hefur alltaf verið að hafa þetta eins jafnt og hægt er. Það er verkefnið,“ segir hún. Stutt er síðan vaktafyrirkomulagi var breytt í verksmiðjunni sem gerir störf á þessum stærsta vinnustað Austurlands fýsilegri fyrir konur.

Vinnuna segir hún geta tekið á, hitinn í álverinu sé t.a.m. á köflum mikill en með góðri skipulagningu sé dregið úr líkamlega þættinum eins og hægt er. Þar sem álframleiðsla fer fram er ýmislegt að varast. „Við erum að vinna með bráðinn málm og það fer eftir verkinu hversu mikið varnarlag við þurfum. Ef við erum að vinna með bráðið ál þurfum við að vera í réttum öryggisfatnaði, við viljum að allir komi heilir heim.“  

Mikil skemmtun í blakinu

„Þetta er mjög gaman þetta er meira en bara að spila blak,“ segir Rebekka og á við félagsskap kvenna á Reyðarfirði sem hittist í blaktímum í íþróttahúsi bæjarins allt að þrisvar í viku. Þá taka þær þátt í öldungamótum og í gegnum íþróttina og ferðalögin sem tengjast keppnum segir hún að hafi myndast góður vinskapur.

Hluti af skemmtuninni sé að gera skemmtilega búninga til að klæðast á mótunum og að æfa fögn fyrir mót. „Það er eitt það skemmtilegasta við þetta, hversu mikið og asnalega fólk fagnar.“ Þrátt fyrir stutt sé í grínið og að vera ekki í hæsta styrkleikaflokki segir hún lítið gefið eftir þegar stigið sé inn á völlinn.„Við erum ekki í fyrstu deild en við viljum líka vinna, það er alltaf markmiðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK