Samsung hefur innkallað 2,8 milljónir þvottavéla í Bandaríkjunum eftir að hurðir hafa losnað af þvottavélum frá framleiðandanum. Varð gallinn m.a. til þess að maður kjálkabrotnaði.
Að sögn fyrirtækisins er um 34 útgáfur af þvottavélum að ræða sem framleiddar voru frá mars 2011 til dagsins í dag.
Níu manns hafa greint Samsung frá áverkum sem reka má til þvottavéla framleiðandans. Þá hafa Samsung borist 733 kvartanir vegna mikils titrings eða hurða sem losna af vélunum.
Samsung hefur átt erfitt síðastliðnar vikur, þá aðallega vegna snjallsímans Galaxy Note 7 en fyrirtækið þurfti að innkalla 2,5 milljónir síma eftir að upp komst galli sem leiðir til þess að það kvikni í símunum. Nýlega komst Samsung að þeirri niðurstöðu að hætta framleiðslu á símanum alveg.
Í tilkynningu Samsung segir að hætta sé á því að tromlurnar í þvottavélunum missi jafnvægi, sem leiðir til mikils titrings og að hluti þvottavélarinnar detti af.
„Þetta getur gerst þegar að vélarnar eru stilltar á mikinn snúningshraða, til dæmis þegar verið er að þvo rúmföt eða fyrirferðarmikla hluti og skapar það hættu gagnvart neytendum,“ sagði í tilkynningu Samsung.
Sumir viðskiptavinir, sem hafa kært Samung, segja þó að vélarnar þeirra hafi „sprungið við eðlilega notkun“.
Í frétt BBC er vitnað í John Herrington, aðstoðarforstjóra Samsung í Bandaríkjunum, sem segir að öryggi á heimilum sé alltaf forgangsatriði fyrirtækisins.