Stjórn Lindarhvols, félags sem stofnað var til að annast umsýslu, fullnustu og sölu á þeim eignum sem ríkið fékk í hendurnar sem stöðugleikaframlög slitabúa bankanna, segir söluferlið á 17% hlut ríkisins í Klakka hafa verið að fullu leyti í samræmi við þær verklagsreglur sem Lindarhvoli hafi verið settar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Lindarhvols sem birt var í gær. Hún var send út til „leiðréttingar á rangfærslum og misskilningi“ í fréttaflutningi síðustu daga af málefnum félagsins. Í yfirlýsingu stjórnarinnar er þó ekki að finna nánari útlistun á því í hverju þær rangfærslur hafi átt að felast, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Blaðið hefur fjallað um framkvæmd sölunnar á Klakka, sem er eigandi Lýsingar, og hefur ítrekað reynt að ná tali af Þórhalli Arasyni, stjórnarformanni félagsins, frá því í síðustu viku og sömuleiðis Steinari Þór Guðgeirssyni lögmanni, sem falið var af stjórn Lindarhvols að sjá um sölu fyrrnefnds eignarhlutar. Hvorugur þeirra hefur svarað fyrirspurnum blaðsins en þó náðist í Þórhall í tengslum við birtingu yfirlýsingarinnar í gær. Vildi hann ekkert láta hafa eftir sér.