Á fundum sem Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, átti með Ríkisendurskoðun í ágúst og september féllst bankastjórinn á að líkast til hefði bankinn gleymt að spyrja forsvarsmenn greiðslukortafyrirtækisins Borgunar út í aðild þess að Visa Europe, þegar bankinn seldi 31,2% hlut sinn í fyrirtækinu í árslok 2014. Þetta kemur fram í drögum að skýrslu sem Ríkisendurskoðun vinnur nú að og varðar sölu bankans á nokkrum lykileignum í hans eigu á síðustu árum.
Harðar deilur hafa risið milli bankans og fyrirtækisins í kjölfar þess að upplýst var um að vegna valréttar sem Visa Inc. hefur nýtt gagnvart Visa Europe, mun Borgun hagnast um ríflega 9 milljarða króna. Sú fjárhæð var hvergi lögð til grundvallar við verðmat á hlutnum sem Landsbankinn seldi en nú er talið ljóst að endanleg greiðsla fyrir hlutinn muni nema 2.139 milljónum króna.
Svo harkalega hefur slegið í brýnu milli fyrirtækjanna að Landsbankinn tilkynnti fyrr á árinu að hann mundi höfða mál gegn Borgun vegna málsins og telur í því sambandi að upplýsingum um valrétti Visa Inc. gagnvart Visa Europe hafi verið haldið leyndum fyrir bankanum.
Í fyrrnefndum skýrsludrögum kemur fram að Landsbankinn hafi viðurkennt að starfsmenn bankans hafi ekki skoðað þau gögn sem þeim var veittur aðgangur að og forsvarsmenn Borgunar lögðu fram í gagnaherbergi sem opnað var í kjölfar undirritunar kaupsamnings. Þeim gögnum var ætlað að gera kaupandanum kleift að framkvæma laga- og tæknilega áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu.
Segir Ríkisendurskoðun að þessi staðreynd valdi því að ábyrgð bankans sé mikil enda hafi gagnaherbergið sem um ræðir haft mikla þýðingu. Hafi þar verið að finna gögn sem sýnt hafi með óyggjandi hætti fram á aðild Borgunar að Visa Europe. að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Uppfært 14:22
Borist hefur athugsemd vegna fullyrðingar í fréttinni þess efnis að Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, hafi leitt fjárfestahópinn sem keypti hlut Landsbankans í Borgun. Það er ekki rétt og leiðréttist það hér með.