Vinnubrögðin sköðuðu orðspor bankans

Landsbankinn hefði þurft að setja sér skýrar reglur um sölu annarra eigna en fullnustuegina fyrr en árið 2015. Þetta er mat Ríkisendurskoðunar sem kemur fram í nýrri skýrslu, Eignasala Landsbankans hf. 2010-2016. Þá hefði bankinn þurft að fylgja betur þeim meginkröfum að selja mikilvægar eignir í opnu og gagnsæju söluferli eða rökstyðja ella frávik frá þeim kröfum.

Landsbankinn segist í tilkynningu vera sammála því að selja eigi eignir í opnu söluferli og vinnur eftir þeirri meginreglu, enda hefur bankinn gert það nema í örfáum tilfellum. „Undantekningar frá reglunni um opið söluferli skulu samþykktar af bankaráði og ákvarðanir rökstuddar og skráðar. Landsbankinn tekur ákvarðanir með hagsmuni bankans að leiðarljósi og fer eftir þeim lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanaum.

Er það mat Ríkisendurskoðunar að vinnubrögð bankans við eignasölur á undanförnum árum skaðað orðspor hans auk þess sem hann lét ekki alltaf á það reyna með full­nægjandi hætti hvort fá hefði mátt hærra verð fyrir eign­irnar.

Sú skoðun Landsbankans að Borgun hefði átt að upplýsa um …
Sú skoðun Landsbankans að Borgun hefði átt að upplýsa um rétt sinn á verðmætum í tengslum við yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe við söluna í Borgun árið 2014, ítrekuð í tilkynningu bankans. Bent er á að stjórnendur félagsins hafi skuldbundið sig til að greina frá öllu sem gæti haft áhrif á verðmæti þess. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fékkst líklega lægra verð en vænta mátti

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er sérstaklega fjallað um sölu Landsbankans á eignarhlutum sínum í Vestia hf. (2010), Icelandic Group hf. (2010), Promens hf. (2011), Framtakssjóði Íslands slhf. og IEI slhf. (2014), Borgun hf. (2014) og Valitor hf. (2014). Bendir Ríkisendurskoðun á að allar þessar sölur hafi farið fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum fékkst líklega lægra verð fyrir eignar­hlutina en vænta mátti mið­að við verð­mætin sem þeir geymdu.

„Ríkisendurskoðun gagnrýnir Landsbankann sérstaklega fyrir að hafa ekki aflað sér nægilegra upplýsinga um greiðslukortafyrirtækið Borgun, m.a. um aðild fyrirtækisins að Visa Europe Ltd. Erfitt er að meta þá fjár­hæð sem Lands­bankinn fór á mis við þar sem hagnaður Borg­unar, alls um 6,2 milljarðar króna varð að nokkru leyti til eftir sölu eignarhlutarins,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar.

Tekur niðurstöðum skýrslunnar alvarlega

Landsbankinn telur sig ekki hafa vitað um aðild Borgunar að Visa Europe en í skýrslunni er bent á að aðild Borgunar að Visa Europe hafi verið for­senda þess að fyrirtækið hafi sinnt færslu­hirðingu vegna Visa­korta til margra ára. Þá gerði Borgun vorið 2014 tilboð í útgáfu Visakorta fyrir Landsbankann þar sem sérstaklega var tekið fram að fyrirtækið gæti boðið upp á það vöru­merki, sem krafðist aðildar að Visa Europe. Einnig er gagnrýnt að bankinn nýtti sér ekki aðgang að rafrænu gagnaherbergi haustið 2014 þar sem hugsanlega hefði fengist staðfesting á umræddri aðild Borgunar. Ríkisendurskoðun telur að slíkt hefði verið eðlilegur hluti af sölu­ferlinu og for­senda upp­lýstrar skoðunar á tilboðinu.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans.
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans.

Í tilkynningu Landsbankans varðandi mat Ríkisendurskoðunar er vitnað í Helgu Björk Eiríksdóttur, formann bankaráðs sem segir bankann taka niðurstöðum skýrslunnar og ábendingum alvarlega. Bendir hún á að bankaráð hafi óskað eftir því að Ríkisendurskoðun, sem óháður aðili og ytri endurskoðandi Landsbankans, rýndi söluna á hlut bankans í Borgun árið 2014. Fleiri höfðu óskað eftir slíkri skoðun og varð niðurstaðan sú að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á eignasölu bankans á tímabilinu 2010-2016.

„Við fengum drög að skýrslunni til skoðunar og í henni koma fram okkar viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar. Á síðustu misserum hefur verið bætt úr mörgu af því sem Ríkisendurskoðun gagnrýnir en það er okkar markmið að læra af reynslunni og gera ávallt betur. Í því ljósi munum við kynna okkur efni endanlegrar skýrslu ítarlega og meta hvort frekari aðgerða er þörf,“ er haft eftir Helgu.

Mun ekki tjá sig frekar um söluna í Borgun

Þá er sú skoðun Landsbankans að Borgun hefði átt að upplýsa um rétt sinn á verðmætum í tengslum við yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe við söluna í Borgun árið 2014, ítrekuð í tilkynningu bankans. Bent er á að stjórnendur félagsins hafi skuldbundið sig til að greina frá öllu sem gæti haft áhrif á verðmæti þess.

„Landsbankinn hefur undanfarna mánuði undirbúið málsókn vegna þess að hann telur sig hafa farið á mis við verðmæti í viðskiptunum. Vegna fyrirhugaðrar málsóknar mun bankinn, að svo stöddu, ekki tjá sig frekar um sölu á hlut bankans í Borgun,“ segir í tilkynningunni.

Þarf að endurreisa orðspor bankans

Ríkisendurskoðun hvetur bankaráð til þess að grípa til ráðstafana til að endurreisa orðspor bankans. Stofnunin telur í því sambandi mikilvægt að bankaráð tryggi að Landsbankinn fylgi eigendastefnu ríkisins og öðrum reglum sem eiga að stuðla að góðum stjórnarháttum og heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði. Þá er bankaráð hvatt til að fylgja betur ákvæðum eigin starfsreglna, fjalla um og taka ákvarðanir um óvenju­legar eða mikilsháttar ráð­staf­anir, tryggja að gögn sem varða mikilvægar ákvarðanir séu skjöluð og tryggja skýr ábyrgðarskil milli bankans og dótturfélaga hans. Óæskilegt sé að bankastjóri sitji í stjórn dótturfélaga bankans.

Þá er fjármála- og efnahagsráðuneytið hvatt til þess að taka reglur og eigendastefnur um eignasölur ríkisins og fyrirtækja í þess eigu til endurskoðunar með það fyrir augum að skerpa á þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka