Hvað gerir þennan föstudag svartan?

Viðskiptavinir Macy's í New York á svarta föstudeginum 2013.
Viðskiptavinir Macy's í New York á svarta föstudeginum 2013. AFP

Svartur föstudagur er tiltölulega nýr af nálinni hér á landi en bæði dagurinn eða hugtakið eiga sér öllu lengri sögu í Bandaríkjunum. Að sögn Kristins Schram, lektors í þjóðfræði við Háskóla Íslands, má rekja hugtakið til austurstrandar Bandaríkjanna á sjöunda áratugnum. Kristinn telur líklegt að kaupmenn hafi komið deginum á hér á landi en landsmenn hafa þó sýnt fyrirbærinu mikinn áhuga.

Kristinn segir uppruna nafnsins eða hugtaksins Black Friday vera áhugaverðan. „Það er gaman að velta fyrir sér uppruna þessa dags í Bandaríkjunum. Það er heilmikil þjóðfræði í kringum það og margar þjóðsögur.“

Kristinn Schram
Kristinn Schram

Kristinn nefnir tvær sögur sem dæmi en segir að þeim fari fjölgandi frá ári til árs. „Sú þjóðsaga var á kreiki að þessi dagur ætti rætur sínar að rekja til þess að þrælasalar hefðu selt þrælana á afslætti til plantekrueigenda daginn eftir þakkargjörðarhátíðina.“ Að sögn Kristins er hin sagan öllu þekktari. „Önnur svona nútímaþjóðsaga segir að þetta sé vegna þess að á þessum tíma komist kaupmenn loksins úr rauðu í svart í bókhaldinu,“ en í bókhaldstali vísa rauðar tölur til rekstrartaps en svartar til hagnaðar.

Kristinn segir báðar sögurnar uppspuna því samkvæmt rannsóknum ýmissa þjóðfræðinga megi rekja hugtakið til Fíladelfíu í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum. „Lögreglumenn notuðu þetta hugtak til að lýsa fyrsta deginum eftir þakkargjörðarhátíðina. Þá munu svo margir hafa hringt sig inn veika og notað tækifærið til þess að fara í verslanir. Þetta er dagurinn sem markar aðventuna hjá kaupmönnum, en hugtakið á að hafa lýst ákveðnum umferðarvanda og öðru sem tengdist þessum mikla og ófyrirséða fólksfjölda á götum borgarinnar.“

Illur fyrirboði?

Kristinn segir gaman að velta fyrir sér viðskeytinu svartur í samhengi við tilboðsdaginn. „Þetta viðskeyti hefur vissulega haft ýmsa merkingu í gegnum tíðina en yfirleitt hefur það táknað slæma fyrirboða eða verið merki um hönd hins illa, jafnvel kölska sjálfan.“

Eftir að svarti föstudagurinn gekk yfir í fyrra kvörtuðu margir yfir því að enska heitið Black Friday væri notað á Íslandi. Spurður um hvort hann teldi merkingu viðskeytisins svartur vera ástæðuna sagði Kristinn það auðvitað bara vera getgátur. „Það kann svo sem að vera að þeir séu að forðast svona þekkta neikvæða merkingarauka við hinn svarta lit.“

Sjónvörpin munu eflaust rjúka út á morgun.
Sjónvörpin munu eflaust rjúka út á morgun. AFP

„Föstudagur til fjár“

Hver sem uppruni hugtaksins er er ljóst að um stóran dag er að ræða í verslun í Bandaríkjunum og víðar. Hér á landi eru sífellt fleiri verslanir þátttakendur í svarta föstudeginum, eða „föstudegi til fjár“ eins og rekstraraðilar í miðborg Reykjavíkur nefndu fyrirbærið í fyrra. Kristinn telur líklegt að áhuga Íslendinga á deginum megi rekja til neyslugleði landsmanna. „Hún endurspeglar kannski þessa rísandi sjálfsmynd Íslendinga sem neysluglaðs samfélags. Kannski er eitthvað að fjara undan þessari mynd af okkur sem sjálfbærri, sparneytinni þjóð sem við vildum hverfa til stuttu eftir hrun.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK