Ísland í mál við Iceland

Ísland hefur höfðað mál gegn Iceland-keðjunni.
Ísland hefur höfðað mál gegn Iceland-keðjunni. mbl/Kristinn

Gripið hefur verið til lagalegra aðgerða af hálfu utanríkisráðuneytisins gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods en fyrirtækið hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki gætu auðkennt sig með upprunalandi sínu við markaðssetningu á vörum sínum og þjónustu í Evrópu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu en auk þess hafa Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins undirbúið málaferlin.

„Breska fyrirtækið hefur einkarétt á orðmerkinu ICELAND í öllum löndum Evrópusambandsins, samkvæmt ákvörðun þeirrar stofnunar innan ESB sem annast vörumerkjaskráningar (EUIPO). Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt, enda sé það of víðtækt og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns. Verslunarkeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið ICELAND sem hluta af vörumerki sínu,“ segir ennfremur í tilkynningunni. Aðgerðir verslunarkeðjunnar hafi meðal annars bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland.

„Það er bæði sanngjarnt og eðlilegt að íslenskir aðilar geti vísað til upprunalandsins ef þeir kjósa svo í sínu markaðsstarfi sínu erlendis. Í huga neytenda víða um heim er ímynd Íslands mjög jákvæð og í því felast mikil tækifæri fyrir land og þjóð. Tilraunir okkar til að semja um sanngjarna lausn á vandanum hafa engu skilað og okkur er því nauðugur sá kostur að leita réttar okkar með formlegum hætti hjá viðeigandi stofnunum Evrópusambandsins. Ég er vongóð um að niðurstaðan verði jákvæð,” er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK