Framkvæmdastjóri Íslandsstofu segir aðgerðir utanríkisráðuneytisins gagnvart bresku verslunarkeðjunni Iceland ekki snúast um það að meina henni að nota nafnið í sínu vörumerki heldur að þeir geti ekki meinað íslenskum aðilum að nota nafnið. Hann segir nafnið mjög mikilvægt fyrir íslenskan útflutning. „Það skiptir bara öllu máli að það sé ekki einhver þriðji aðili erlendis sem geti meinað íslenskum fyrirtækjum að kenna sín vörumerki við Ísland,“ segir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, í samtali við mbl.is.
Fyrri frétt mbl.is: Ísland í mál við Iceland
Breska fyrirtækið Iceland hefur einkarétt á orðmerkinu ICELAND í öllum löndum Evrópusambandsins, samkvæmt ákvörðun þeirrar stofnunar innan ESB sem annast vörumerkjaskráningar (EUIPO). Samkvæmt tilkynningu utanríkisráðuneytisins sem barst í gær hafa íslensk stjórnvöld krafist þess að einkaleyfið verði ógilt, enda sé það of víðtækt og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns. Verslunarkeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið ICELAND sem hluta af vörumerki sínu.
Jón segir langt síðan Íslendingar byrjuðu fyrst að mótmæla þessari skráningu Iceland en það hefur ekki enn borið árangur í Bretlandi. „Okkar andmæli hafa ekki fengið hljómgrunn. En það er fyrst núna frekar nýlega sem þeir hafa á óvæginn hátt farið að andmæla okkar skráningum, til að mynda Inspired by Iceland. Þá varð mælirinn fullur gagnvart okkur.“
Jón ítrekar að íslenskir aðilar hafi aldrei viljað meina Iceland að nota sitt nafn í skráningum. „Við höfum reynt að ná samkomulagi við þá í gegnum árin með þeirri nálgun að þeir gætu notað þetta nafn og við myndum ekki fara inn á þeirra svið, þ.e. verslunarrekstur. En þeir hafa til dæmis mótmælt skráningu á íslenskum vörum í sjávarútvegi. Eitt íslenskt fyrirtæki vildi skrá vörumerkið Iceland Gold sem Iceland andmælti.“
Hann segir að nú fari málið í gegnum evrópsku vörumerkjaskráninguna sem tekur sinn tíma. „Ég vona bara innilega að þetta falli með okkur.“