Breska verslunarkeðjan Iceland hefur ekki fengið neina beiðni frá íslenskum stjórnvöldum nýverið um að reyna að ná sátt um notkun á orðinu Iceland. Keðjan harmi þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að höfða mál gegn þeim vegna notkunar orðsins Iceland. Þetta kemur fram í tilkynningu Iceland Foods, sem er í eigu stofnanda keðjunnar, Malcolm Walker, og suðurafríska fjárfestingafélagsins Brait. Tilkynningin var birt í breskum fjölmiðlum í gær.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu um málið í gær og sendi Iceland Foods sína tilkynningu í kjölfarið.
Frétt mbl.is: Ísland í mál við Iceland
„Utanríkisráðuneytið hefur gripið til lagalegra aðgerða gegn bresku verslunarkeðjunni Iceland Foods, sem hefur um árabil beitt sér gegn því að íslensk fyrirtæki geti auðkennt sig með upprunalandinu við markaðssetningu í Evrópu á vörum sínum og þjónustu. Auk ráðuneytisins hafa Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins undirbúið málaferlin.
Breska fyrirtækið hefur einkarétt á orðmerkinu ICELAND í öllum löndum Evrópusambandsins, samkvæmt ákvörðun þeirrar stofnunar innan ESB sem annast vörumerkjaskráningar (EUIPO). Íslensk stjórnvöld krefjast þess að einkaleyfið verði ógilt, enda sé það of víðtækt og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti vísað til landfræðilegs uppruna síns.
Verslunarkeðjan hefur ítrekað kvartað til evrópskra yfirvalda yfir íslenskum aðilum sem nota orðið ICELAND sem hluta af vörumerki sínu. Aðgerðir verslunarkeðjunnar hafa m.a. bitnað á markaðsátakinu Inspired by Iceland, en undir þeim hatti hefur Ísland verið markaðssett sem spennandi áfangastaður fyrir ferðamenn,“ segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Forsvarsmenn Iceland Foods ætla að verja rétt fyrirtækisins á að nota nafnið sem hefur verið í notkun í 46 ár. Þeir telja litlar líkur á að alvarlegur misskilningur geti komið upp í huga almennings um hvort sé að ræða landið eða verslunarkeðjuna. Þeir vonist til þess að íslensk stjórnvöld hafi beint samband við þá svo hægt verði að leysa úr málinu.